Misjafnar skoðanir á kílómetragjaldi

Kíló­metra­gjaldið á að koma í stað olíu- og bens­íngjalda sem …
Kíló­metra­gjaldið á að koma í stað olíu- og bens­íngjalda sem eru greidd við kaup á jarðefna­eldsneyti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Misjafnar skoðanir eru um áform stjórnvalda um breytt fyrirkomulag á kílómetragjaldi ökutækja.

Meirihlutinn virðist þó misjafnlega ósáttur við breytingarnar, ef marka má umsagnir við áformin um frumvarp þess efnis í samráðsgátt stjórnvalda.

Umsagnirnar um málið í samráðsgáttinni eru 20 talsins þegar þetta er skrifað. 19 þeirra eru skrifaðar af karlmönnum en ein þeirra er eftir konu. 

Kíló­metra­gjaldið á að koma í stað olíu- og bens­íngjalda sem eru greidd við kaup á jarðefna­eldsneyti. Þau gjöld verða felld á brott sam­hliða upp­töku kíló­metra­gjalds­ins.

„Viðbótarskattur sem ekkert verður lagt niður í staðinn fyrir, sagan segir það,“ segir Guðmundur Rúnar Jónsson, í umsögn sinni.

Greitt í samræmi við þyngd ökutækja

Er áformað með frum­varp­inu að greitt verði fyr­ir fjölda ek­inna kíló­metra í sam­ræmi við þyngd öku­tækja óháð flokki.

Lagt er til að kíló­metra­gjald verði föst krónu­tala fyr­ir hvern ek­inn kíló­metra af öku­tækj­um með leyfða heild­arþyngd 3.500 kg. eða minna, en fyr­ir ligg­ur að þau öku­tæki valda al­mennt áþekku vegsliti.

Ef leyfð heild­arþyngd öku­tæk­is er um­fram 3.500 kg. mun fjár­hæð kíló­metra­gjalds taka mið af heild­arþyngd út frá út­reikn­ingi á til­tekn­um þyngd­arstuðli. Gjaldið fer því hækk­andi með auk­inni þyngd tæk­is­ins.

Eykst í veldisvexti

Magnús Jóhannesson fagnar því að kílómetragjald taki mið af öxulþunga ökutækis.

„Það verður hins vegar að gera þannig að gjaldið taki mið af raunverulegu álagi viðkomandi ökutækis á þjóðvegi landsins. Slit á vegum eykst með öxulþunga í veldisvexti.

Verði það haft að leiðarljósi mun mestur hluti þungaflutninga á þjóðvegum flytjast í strandflutninga með skipum sem leiða mun aftur til umtalsvert minni losunar koldíoxíðs og lægri viðhaldskostnaðar á vegum, svo ekki sé minnst á aukið umferðaröryggi,“ segir Magnús í samráðgáttinni.

Óvissa um innheimtu

Vissa tortryggni gagnvart áformunum má skynja í máli þeirra sem hafa skrifað um málið. Minnst er á að áður fyrr hafi skattur verið lagður á ökumenn sem hafi átt að vera eyrnamerktur fyrir vegakerfið en það hafi ekki orðið raunin.

Fyrst að gjaldið er miðað við þyngd ökutækis og þar með slit þess á vegum, hljóti að vera eðlilegt að sá peningur fari í uppbyggingu og viðhald vegakerfisins á landinu.

„Það virðist vera orðin viðtekin venja hjá ríkiskassanum að skattpína landsmenn svo þegar skatturinn er dottinn inn í kassann eru fingralangir sem veita þeim peningum annað en var lofað,“ segir Björn Jón Níelsson.

Þá virðast margir hafa áhyggjur af því hvernig innheimtu á kílómetragjaldinu verði háttað og sérstaklega er minnst á bifreiðar sem ferðamenn taka með sér með Norrænu og aka á víða um vegi landsins.

Þar að auki sé óvíst hvernig eigi að rukka þá sem taka bíla sína til Evrópu og aka um á þeim þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka