Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir útlit fyrir að atvinnuleysi muni aukast á síðari hluta ársins. Atvinnuleysi sé hins vegar óverulegt sem stendur og ólíklegt að það muni aukast mikið.
Skráð atvinnuleysi í júní var 3,1% hjá Vinnumálastofnun en 2,9% í júní í fyrra. Um sjö þúsund manns voru án vinnu í lok júní.
Ingólfur segir aðspurður ekki hægt að líkja þessari niðursveiflu við fyrri niðursveiflur á öldinni. Leita þurfi samanburðar við mildar niðursveiflur í fortíð.
Varðandi samspil orkuframboðs og hagvaxtar segir hann áralangt framkvæmdaleysi í orkumálum að koma í bakið á þjóðinni. Ekki sé hægt að fullnýta framleiðslugetu orkusækins iðnaðar vegna skerðinga á raforku. Það dragi úr útflutningstekjum og leggist á árar með öðrum þáttum sem dragi hagkerfið niður.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag