„Þá væri þessi Mohammed Kourani farinn“

Inga Sæland gagnrýndi Guðrúnu Hafsteinsdóttur í hlaðvarpinu Síðdegisútvarpinu.
Inga Sæland gagnrýndi Guðrúnu Hafsteinsdóttur í hlaðvarpinu Síðdegisútvarpinu. mbl.is/Arnþór/Kristinn Magnússon

„Ef að þessi löggjöf Flokks fólksins og þessi breytingartillaga mín hefði náð fram að ganga í júní síðastliðnum, þá væri þessi maður farinn af landi brott. Þá væri þessi Mohammed Kourani farinn,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, í nýjum þætti hlaðvarpsins Síðdegisútvarpið.

Gagnrýnir þar formaðurinn Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra fyrir að hafa í júní síðastliðnum fellt breytingartillögu Flokks flokksins við útlendingalögin.

Fól tillagan í sér að allir þeir sem hlotið hafa hér alþjóðlega vernd séu ekki undanþegnir því að vera brottvísað af landinu gerist þeir ítrekað brotlegir við lög.

Segir auka fangaverði hafa verið ráðna

mbl.is greindi frá í gær að gripið hef­ur verið til varúðarráðstaf­ana á Litla-Hrauni vegna Kourani sem bíður dóms­upp­kvaðning­ar vegna stunguárásar sem átti sér stað í mars. Kom þá fram að að viðbúnaður­inn sem nú sé á Litla-Hrauni vegna Sýr­lend­ings­ins eigi sér enga hliðstæðu.

Í Síðdegisútvarpinu á Útvarpi Sögu hélt Inga því fram að búið sé að ráða fjóra auka fangaverði á Litla-Hraun, einungis til að höndla Kourani.

„Það er búið að ráða hér fjóra auka fangaverði á Litla Hraun bara til þess að geta sinnt hans ofbeldi og hans ógnum. Hann í rauninni svífst einskis.“

Eft­ir árás Kourani í OK mar­ket upp­lýsti Helgi Magnús Gunn­ars­son vara­rík­is­sak­sókn­ari að Kourani hafi einnig staðið í hót­un­um við sig árum sam­an og hlotið dóm fyr­ir. Í heild voru sak­ar­efn­in þá lík­ams­árás, hús­brot, brot gegn nálg­un­ar­banni, eigna­spjöll, brot gegn sótt­varna­lög­um, brot gegn vald­stjórn­inni, fyr­ir að gabba lög­reglu, brot gegn vopna­lög­um, skjalafals og um­ferðarlaga­brot.

Flokkurinn vildi umsvifalaust svipta dvalarleyfi

Í eldhúsdagsumræðum sem fóru fram 12. júní sagði dómsmálaráðherra að það væri sjálfsögð og eðlileg lágmarkskrafa að þeir sem dvelja hér á landi, hvort sem um er að ræða Íslendinga eða aðra, fari eftir íslenskum lögum. Væri það því hennar skoðun að ef flóttamaður gerist uppvís um alvarlegan glæp á Íslandi ætti að svipta hann dvalarleyfi.

Sagði ráðherra að til að tryggja öryggi borgara í landinu vildi hún setja sambærilegt ákvæði í íslensk lög og finna mætti á Norðurlöndunum.

Í breytingartillögu Flokks fólksins, sem lögð var fyrir 13. júní kemur fram að flokkurinn skilji ekki hvers vegna það þurfi að gefa fyrirheit um að lagafrumvarp sem tryggi þessa breytingu verði lagt fram einhvern tímann í framtíðinni.

„Ef flóttamaður verði uppvís um alvarlegan glæp á Íslandi skuli umsvifalaust svipta hann dvalarleyfi og hann sendur úr landi,“ segir í tillögunni.

Breytingar á lögum í vinnslu

Dómsmálaráðherra greiddi atkvæði gegn tillögunni degi síðar vegna þess að hún sagði að  breytingartillagan myndi ekki ná markmiðum sem hún ætti að ná af lagatæknilegum ástæðum.

„Breytingartillaga Flokks fólksins tekur í engu tilliti til afturköllunar alþjóðlegrar verndar en það er grundvallaratriði í þessu samhengi. Af þeim sökum er tillagan ótæk og því greiði ég atkvæði gegn henni,“ sagði í svari dómsmálaráðherra.

Sagði þá dómsmálaráðherra í viðtali við mbl.is 4. júlí að breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um fyr­ir næsta haustþing væru í vinnslu í dóms­málaráðuneyt­inu um þess­ar mund­ir og meðal þess sem væri til skoðunar er aft­ur­köll­un á alþjóðlegri vernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert