Máli mannsins sem hékk utan á handriði þingpallanna á Alþingi og virtist hóta því að hoppa niður í mótmælaskyni þegar nýtt útlendingafrumvarp var kynnt í mars hefur verið vísað til héraðssaksóknara.
Maðurinn, sem er flóttamaður frá Írak, var handtekinn á Alþingi en sleppt úr haldi degi síðar.
Að sögn Unnars Más Ástþórssonar yfirlögregluþjóns er rannsókn málsins hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu lokið og var því vísað til héraðssaksóknara í lok maí.
Samkvæmt upplýsingum frá héraðssaksóknara hefur málinu ekki enn verið úthlutað og því ekki hægt að gefa meira upp um það að svo stöddu.
Þá gátu hvorki lögregla né héraðssaksóknari tjáð sig um stöðu mannsins og hvort hann sé enn á landinu.