Tillaga um arð samþykkt

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Borgarráð samþykkti á fundi sínum í gær það sem kallað var „uppfærð arðgreiðslutillaga“ stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur sem felur í sér að fyrirtækið greiðir út arð upp á 6 milljarða króna, en þó ekki alla upphæðina í einu lagi.

Tillaga þessa efnis var samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Viðreisnar og Sósíalistaflokks Íslands gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Arðgreiðslan nemur tæplega 2,3% af eigin fé fyrirtækisins í árslok 2023 og 94% af hagnaði ársins. Megnið fellur til borgarinnar sem á rúm 93,5% í fyrirtækinu. Í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem gerð var af þessi tilefni er samþykktinni mótmælt.

Óforsvaranlegt að blóðmjólka innviðafyrirtækin

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokks telja með öllu óábyrgt að gera svo ríka arðgreiðslukröfu á Orkuveituna, ekki síst þar sem afkoma liðins árs var undir áætlun. Fyrirhugaðar eru umfangsmiklar og mikilvægar innviðafjárfestingar á vegum Orkuveitusamstæðunnar á næstu árum. Það er óforsvaranlegt af borgaryfirvöldum að blóðmjólka innviðafyrirtækin með þessum hætti, til þess eins að plástra óábyrgan rekstur borgarinnar,“ segir í bókuninni.

Hin uppfærða arðgreiðslutillaga kveður á um að milljarðarnir 6 verði ekki greiddir út í einu lagi, heldur verði 4 milljarðar greiddir út fljótlega eftir afgreiðslu tillögunnar, milljarður verði greiddur eftir 9 mánaða uppgjör fyrirtækisins og milljarður til viðbótar komi til greiðslu í desember, að því gefnu að niðurstaða ársins stefni í að verða í takt við áætlanir.

Fram kemur í greinargerð að eftir endurskoðun á fjárhagsspá Orkuveitu Reykjavíkur og rýni óvissuþátta hafi tillagan verið uppfærð. Í henni felst að veltufjárhlutfall lækkar þar sem eignarhlutur í Landsneti er færður meðal fastafjármuna, nýtt hlutafé í Carbfix og Ljósleiðaranum skili sér ekki á árinu 2024 og í því ljósi hafi fjárfestingar Carbfix, Ljósleiðarans og annarra fyrirtækja í samstæðu Orkuveitunnar verið endurskoðaðar og lækkaðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert