Flughátíðin á Hellu hefst í dag af fullu fjöri, en fyrstu gestir mættu á svæðið á mánudag, eflaust til að ná bestu stæðum tjaldsvæðisins.
Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands og skipuleggjandi hátíðarinnar, segir allt stefna í bráðskemmtilega helgi, þrátt fyrir örlítið dapurlega veðurspá.
„Veðrið hefur ekkert verið að leika við okkur, við getum orðað það þannig, og í sjálfu sér ekkert útlit fyrir að það breytist. Það hefur verið gráskýjað með smá skúrum, en það stoppar okkur ekki, hátíðin verður á sínum stað. “
Þá segir hann að fólk streymi inn á svæðið á húsbílum, á tjaldsvæðin eða í aðra gistingu á svæðinu.
„Ætli þetta sé ekki á annan tug manns sem eru komnir hingað, og verða eflaust mikið fleiri er líður á helgina, en það er smá erfitt að lesa í það hvort fólk ætli að elta sólina eitthvað annað eða hvort það komi hingað.“
Matthías segir að hápunktur hátíðarinnar sé morgundagurinn, enda verði þá samfelld flugsýning frá kl. 12-18, þar sem flugvélar af öllum gerðum taka á loft, lenda og sýna listir sínar yfir svæðinu.
Einnig verður á boðstólnum að skella sér í fallhlífarstökk og í svifflug, ef veður leyfir, en dagurinn endar svo á sameiginlegri grillveislu og kvöldvöku í flugskýlinu á flugvellinum.
Veðrið hefur nú þegar sett sitt mark á hátíðina, en erfitt hefur verið að fljúga vélum frá höfuðborgasvæðinu á Hellu síðustu daga.
„Ætli við þurfum ekki að borga aðeins fyrir þetta góða veður sem var á hátíðinni í fyrra,“ segir Matthías kíminn.
Karamellukastið verður á sínum stað á morgun, til mikillar gleði yngri kynslóðanna, en þá er karamellum kastað úr flugvélum á flugi og börnin, og jafnvel fullorðnir, reyna að grípa einhverjar þeirra í lófann.