Biskupgarður verður seldur

Bergstaðastræti 75 er reisulegt hús, 488 fermetrar og byggt árið …
Bergstaðastræti 75 er reisulegt hús, 488 fermetrar og byggt árið 1928. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég mun búa áfram í Grafarvogi í mínu eigin húsi,“ segir sr. Guðrún Karls Helgudóttir, nýr biskup Íslands. Síðustu áratugi hefur tíðkast að biskup Íslands haldi heimili að Bergstaðastræti 75 í Reykjavík, húsi sem er í eigu þjóðkirkjunnar. Samkvæmt nýlegum samþykktum Kirkjuþings fer húsið á söluskrá í næsta mánuði, en þá verður sr. Agnes M. Sigurðardóttir fráfarandi biskup flutt þaðan.

Guðrún segir að í framtíðinni verði leigðir salir eða annars konar húsnæði haldi biskup boð, móttökur eða slíkt. Til þessa hafa slík mannamót á stundum verið í Bergstaðastrætinu. Á Kirkjuþingi síðasta haust var til dæmis nefnt að þarna gæti hentað safnaðarheimili Dómkirkjunnar í Reykjavík sem er við Lækjargötu; það er Iðnaðarmannahúsinu sem svo gjarnan kallað.

Bergstaðastræti 75 er reisulegt hús, 488 fermetrar og byggt árið 1928. Þar var forðum daga heimili Guðmundar Vilhjálmssonar, forstjóra Eimskipafélags Íslands, og fjölskyldu hans en eftir það Biskupsgarður síðustu áratugi. Fasteignamat hússins í ár er rúmar 292 milljónir kr. en talið er að söluverð gæti verið talsvert hærra, samanber hve dýru gildi hús í Þingholtum og á Skólavörðuholtinu eru höfð í.

Eftir sölu á húsinu við Bergstaðastræti verða áfram í eigu Þjóðkirkjunnar prestbústaðir á nokkrum stöðum úti á landi. Þá eru vígslubiskupum á Hólum og Skálholti lögð til hús.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert