„Mér finnst að við konur þurfum að gera meira af því að styðja hver aðra,“ segir Ragnheiður H. Magnúsdóttir vélaverkfræðingur í samtali við mbl.is. Hún tilkynnti í vikunni á Facebook-síðu sinni að hún ætli að gefa 50 konum ráðgjöf að kostnaðarlausu í tilefni af 50 ára afmæli sínu.
Hún segist vonast til þess að þetta hvetji fleiri konur til þess að herma eftir sér en allir 50 ráðgjafatímarnir voru uppbókaðir á innan við hálfum sólahring eftir hún birti tilkynninguna.
Í Facebook-færslunni býðst Ragnheiður til þess að hjálpa kvenfrumkvöðlum og öðrum kvenleiðtogum við að leysa eitt vandamál sem þær standa frammi fyrir en umræðuefnið gæti snúist um stefnumótun, tekjumódel, fjármögnun eða stjórnun teyma.
Ragnheiður segist hafa komið nálægt öllu sem snýr að nýsköpun í mörg ár. „Mér finnst alveg að það þurfi að styðja konurnar aðeins meira en karlana eins og er.“ Vélaverkfræðingurinn starfar nú sem stjórnandi hjá fjárfestingafyrirtækinu Nordic Ignite, en hefur áður starfað við stafræna innleiðingu hjá Reykjavíkurborg, sem framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, hjá Marel og sem forstöðumaður framkvæmda hjá Veitum, auk þess að sitja í stjórn Tækniþróunarsjóðs, tækniráði og hugverkaráði Samtaka iðnaðarins.
„Það eru fullt af konum sem hafa stutt mig í gegnum tíðina og ég tilheyri fullt af kvennahópum og þetta er leið til að standa saman en fyrst og fremst er þetta bara til þess að hafa gaman, gera eitthvað annað og gefa af mér,“ segir Ragnheiður, spurð hvort hún hafi sjálf fengið ráðgjöf frá öðrum konum sem hafi gefið henni hugmyndina að þessu verkefni.
Innt eftir viðbrögðum við aðsókninni segist Ragnheiður finnast hún ótrúlegt og að hún viti ekki almennilega hvernig þetta gerðist, en að áhuginn sýni fram á þörf fyrir svona verkefnum.
Hún mun gefa konum ráðgjöf frá 15. ágúst til 15. október en hún segist hafa búist við því að það myndi taka júlímánuðinn að fylla í öll plássin.
Ég er að verða fimmtug núna í sumar! FULLBÓKAÐ Af því tilefni langar mig til að gera eitthvað skemmtilegt. Gefa af mér....
Posted by Ragnheiður H. Magnúsdóttir on Wednesday 10 July 2024