Gætu orðið 25 stig á morgun

Frá Reyðarfirði.
Frá Reyðarfirði. mbl.is/Þorgeir Baldursson

„Lægðasvæði á Grænlandshafi og hæð suður af Færeyjum beina enn til okkar hlýrri suðlægri átt, yfirleitt kaldi eða strekkingur en sums staðar hvassara í vindstrengjum við fjöll.“

Svo segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Í dag er útlit fyrir að nokkuð öflugt úrkomusvæði verði yfir Vesturlandi, og á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum má búast við talsverðri rigningu með tilheyrandi vatnavöxtum. Gul viðvörun er í gildi á Faxaflóa og Breiðafirði.

Í öðrum landshlutum verður úrkomuminna, víða súld eða dálítil rigning en yfirleitt þurrt og bjart norðaustantil. Hiti verður á bilinu 11 til 23 stig, hlýjast á Austurlandi.

Áfram verður sunnan kaldi eða stinningskaldi vestantil á landinu á morgun en úrkoma verður mun minni en í dag, súld eða dálítil rigning með köflum. Á austanverðu landinu er hins vegar útlit fyrir einmuna blíðu, fremur hægur vindur og léttskýjað og hiti gæti komist í 25 stig þar sem best lætur.

Á mánudag er svo útlit fyrir milt og bjart veður í flestum landshlutum, en þokubakkar gætu þó látið á sér kræla við austurströndina.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert