Gríðarlega mikil aðsókn hefur verið í sundlaugina á Egilsstöðum alla vikuna og hefur aðsóknin farið stigvaxandi eftir því sem líður á vikuna. Spáð er allt að 25 stiga hita á Austurlandi á morgun.
Í gær og í fyrradag var til dæmis alveg sérstaklega margt fólk í lauginni, segir Guðmundur Birkir Jóhannsson, forstöðumaður íþróttamiðstöðvar á Egilsstöðum, í samtali við mbl.is.
Reyndar var Guðmundur staddur í rigningunni í Reykjavík þegar blaðamaður sló á þráðinn hjá honum.
Hann segist eiga von á öðrum eins fjölda í laugina nú um helgina og er því þegar búinn að gera ráðstafanir varðandi mönnun til þess að anna aðsókninni.
Aðspurður um aðsóknina í bænum segir Guðmundur að það hafi veri allt kjaftfullt á tjaldstæðunum á Egilsstöðum í vikunni, en ekki eins mikið inni í Höfðavík og Atlavík í byrjun vikunnar. Þar hafi þó fyllst er leið á vikuna.
Því til viðbótar kom ferja Norræna til hafnar á Seyðisfirði í vikunni.
Guðmundur bætir við að á svona dögum, þegar margfaldur mannfjöldi er í bænum, sé mjög annasamt í matvörubúðum og því klárist fljótt úr hillunum. Það sé kannski bara eitt brauð eftir í hillunni.
Hann segir þó að allir séu að gera sitt best og búðirnar panti vörur í gríð og erg.
„Þetta er rosalegt,“ segir hann, „en frábært að fólk vilji koma og njóta þess að ferðast innanlands.“
Spáð er allt að 25 stiga hita á Austurlandi á morgun.
Guðmundur segir að hitinn á Egilsstöðum sé á pari við hitann á Tenerife, en samkvæmt norska veðurvefnum YR er allt að 25 stig á spænsku eyjunni í dag og á morgun.
Hann nefnir að hitastigið sé alltaf nokkrum gráðum heitara í bænum en við flugvöllinn þar sem veðurathugunarstöðin er.
Hann reiknar með góðu veðri áfram eitthvað eftir helgi þó það verði kannski ekki alveg jafn heitt og um helgina.
„Eflaust verða heimamenn bara fegnir að fá smá kælingu,“ segir hann sposkur.