Réttast að leyfa starfsemi veðmálafyrirtækja

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður.
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. Árni Sæberg

Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson líkir stöðu veðmálastarfsemi hér á landi við bannlögin með áfengi árið 1909 og telur réttast að starfsemi veðmálafyrirtækja verði leyfð.

Í Facebook-færslu sem Sigurður birti í gær gagnrýnir hann málflutning formanns Íþrótta og ólympíusambands Íslands í kvöldfréttum Stöðvar 2 á dögunum.

Þar talaði forsetinn um starfsemi erlendra veðmálasíðna sem ólöglega og sagði það ólíðandi að síðurnar fái að troða sér inn í íslenskt samfélag.

Hér á landi má aðeins reka veðmálastarfsemi í góðgerðarskini og þarf til þess sérstakt leyfi frá dómsmálaráðuneytinu. Margir Íslendingar stunda hinsvegar viðskipti við erlendar veðmálasíður.

Klassískur vandi

Sigurður hefur staðið í hagsmunagæslu fyrir fyrirtækið Betsson sem heldur úti slíkri síðu.

„Ég er búinn að vinna fyrir það fyrirtæki hér á landi, það er að segja gæta hagsmuna þess vegna þess að það er alltaf verið að segja að þetta sé ólöglegt fyrirtæki og stundi ólögmæta starfsemi. Það er ekki með neina starfsemi á Íslandi og getur auðvitað ekki gert að því að einhverjir spili á síðum þess út í heimi.“

„Þetta er náttúrulega þessi klassíski vandi, við erum aðilar að evrópska efnahagssvæðinu en við höfum auðvitað ákveðnar heimildir samkvæmt þeim samningi til þess að útiloka sérstaka starfsemi,” segir Sigurður en bætir við að í tíð Björns Björnssonar sem dómsmálaráðherra hafi menn komist að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hægt að koma í veg fyrir að Íslendingar nýti sér internetið til viðskipta við löglega aðila úti í hinum stóra heimi.

Nær að hafa starfsemina ofanjarðar

„Þess vegna skildi ég ekki ræðuna sem forseti Íþrótta og ólympíusambands Íslands hélt í fréttum Stöðvar 2 á dögunum og minnti nú eiginlega bara á bannlögin 1909 þar sem áfengisneysla var bönnuð en þó gátu menn undir vissum kringumstæðum fengið að flytja vín inn til Reykjavíkur og geyma það þar og leysa út frá manni sem hafði eitthvert kaup,“ segir Sigurður.

Spurður hvort honum finnist þá ráðlegt að leyfa starfsemina að fullu hérlendis segir Sigurður: „Já ég myndi segja það og miklu nær að hafa þetta bara ofanjarðar og eflaust getur ríkið fundið einhverjar leiðir til að ná af þessu fé.“

Komnir lengra en Íslendingar í forvörnum

Sigurður segir Betson, sem er sænskt fyrirtæki í grunninn, leggja mikið upp úr forvörnum og að það sé komin talsvert lengra en íslensk fyrirtæki í þeim efnum.

„Það leggur rosalega mikið upp úr því að fylgjast með því hvernig menn spila á síðum félagsins og grípa inn í ef þeim finnst að það sé farið að fara of mikið fé af einstaka kortum og er með ráðgjöf fyrir spilafíkla. Þetta er miklu öflugra fyrirtæki í forvörnum gegn spilafíkn og veðmálafíkn en þekkist á Íslandi.“

Þá segir Sigurður að Betson hafi sýnt því áhuga að auglýsa umrædd úrræði hjá íslenskum íþróttafélögum.

„Þeir hafa velt fyrir sér hvort þeir gætu auglýst hjá íslenskum íþróttafélögum, sérstaklega þá starfsemi sína sem lítur að leiðbeiningum gagnvart spilafíkn [...] en ekkert íslenskt íþróttafélag hefur þorað að semja við þá þar sem það stendur í samningum Íslenskrar getspá að þau megi ekki semja við ólögleg fyrirtæki. Og þegar Íþrótta og ólympíusambandið segir bara að öll erlend veðmálafyrirtæki séu ólögmæt þá þora þau auðvitað hvorki að setja félögin í þann vanda eða sjálfa sig.” 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert