Þýskir fallhlífarstökkvarar lentu á Hellu

Þýsk flugvél með fallhlífarstökkvurum lenti á Hellu í dag.
Þýsk flugvél með fallhlífarstökkvurum lenti á Hellu í dag. Ljósmynd/Matthías Sveinbjörnsson

Gestir á flughátíðinni Allt sem flýgur á Hellu fengu ekki að njóta þess að horfa á flugmenn leika listir sínar í dag vegna veðurs.

„Það er voða lítið flugveður en við skemmtum okkur með öðrum hætti í staðinn. Það er eiginlega eini munurinn þegar veðrið er ekki gott þá getur maður ekki mikið flogið,“ sagði Matthías Sveinbjörnsson forsvarsmaður hátíðarinnar í samtali við mbl.is.

Útilega í staðinn

Í stað fluglista njóta gestir samverunnar í tjöldum enda hátíðin mikið mannamót. Matthías segir veðrið hafa ekki haft nein áhrif á stemninguna en að hans sögn er hátíðin mjög fjölmenn í ár.

„Það eru ótrúlega margir hérna miðað við veður, miklu fleiri en ég átti von á að myndu koma.“

Fallhlífastökk næstu daga

Það kom þá einn eftirtektarverður gestur úr háloftinu í dag.

„Það kom vél frá Þýskalandi fyrir fallhlífarstökkvara. Þetta er stór hópur af fallhlífarstökkvurum og eru bara að bíða eftir að skýjahæðin lyftist aðeins svo þeir geti hafið fallhlífarstökkið.“

Fallhlífarstökk verður í boði fyrir almenning á morgun við flugvöllinn á Hellu og verður flugvélin á svæðinu fram á næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert