„Það hefur oft komið svona rigning en þetta er óvanalegt núna,“ segir Ragnar Rúnar Jóhannsson bóndi á Kverná-Neðri í Grundarfirði í samtali við mbl.is.
Gífurleg úrkoma hefur verið á Vesturlandi síðustu daga og hefur Veðurstofan varað við aukinni skriðuhættu.
Ragnar segist vera orðin vanur miklu úrfelli á haustin og vorin en þá sé það oftast yfir styttra tímabil.
„Þetta er yfirleitt einn og hálfur sólarhringur. Einu sinni vorum við með lömbin úti og þá voru 135 millimetra rigning úti. Við hefðum þá getið keypt kút á lömbin og setja þau þannig út.“
Hann segir að kindurnar og lömbin hafi flest verið komin upp í fjall áður en að rigning hófst og því í engri hættu frá vatnsvöxtunum.
„Þetta hefur mest áhrif á heyskapinn. Það er vont að fá vatnið niður af veginum á túnin, þá bælist niður grasið. Það var allt á floti í gær en hefur minnkað í dag.“
Ingi Hans Jónsson hefur búið á Grundarfirði í næstum sjö áratugi og kveðst aldrei hafa upplifað annað eins veður.
„Ég hef aldrei séð annað eins veður. Það er enn þá rok og rigning hérna. Þetta er alveg með ólíkindum,“ segir hann og hlær.
Hann segir þó blessunarvert að það sé ekki hvassviðri með þessari umfangsmiklu rigningu.