„Rakafæriband hefur legið um vestanvert landið frá því síðdegis á föstudag. Mikið hefur rignt, einkum á Snæfellsnesi, ofanverðum Mýrum, við innanverðan Breiðafjörð og í Dölum. Mæld úrkoma í Grundarfirði er algerlega fáheyrð.“
Svo segir í Facebook–færslu veðurvefsins Bliku. Gul viðvörun var í gildi á Breiðarfirði og Faxaflóa yfir helgina.
Samkvæmt upplýsingum Bliku mældist 98,4 mm úrkoma frá því á föstudag, einkum eftir klukkan 18 og til klukkan 9 í gærmorgun.
Frá því klukkan 9 í gær og til klukkan 9 í morgun mældist úrkoman 227,1 mm. Samtals hefur úrkoman því mælst á tveimur sólarhringum um 325 mm.
„Það er sárasjaldan sem sólarhringsúrkoman fer yfir 200 mm á mælistöð“, segir í færslunni. Síðast þegar það gerðist var það á Kvískerjum 15. apríl er mældist 229,7 mm.
Í færslunni segir að það kæmi ekki á óvart að þessir 227,1 mm væri júlímet hér á landi.