Gæta ýtrustu varúðar vegna sæstrengja

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir raforkuöryggi skipta miklu máli …
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir raforkuöryggi skipta miklu máli fyrir alla. Mbl.is/ Árni Sæberg

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, tekur undir orð umhverfis- orku og loftlagsráðherra, varðandi mikilvægi þess að skoða lagningu sæstrengja út frá þjóðaröryggissjónarmiðum.

„Já auðvitað og öll starfsemi er mjög háð rafmagni þannig að raforkuöryggi skiptir gríðarlega miklu máli fyrir alla. Að sjálfsögðu skiptir þjóðaröryggi líka miklu máli vegna þess að ef rafmagn að einhverju leyti laskast, þá hefur það mjög mikil áhrif á þjóðina," segir Guðmundur, spurður hvort honum finnist mikilvægt að horfa á þessa framkvæmd með þjóðarhagsmuni í huga.

Þjónar aðeins þeim tilgangi að flytja rafmagn

„Við verðum að hafa í huga að sá búnaður sem við erum að kaupa er algjörlega passífur, þetta er í raun og veru einangraður rafmagnsleiðari, sem lagður er í sjóinn og þjónar þeim tilgangi að flytja rafmagn milli lands og Eyja. Við höfum áður keypt leiðara á háspennulínur frá Kína," greinir Guðmundur frá. 

Munu kynna fyrir stjórnvöldum

Spurður hvort honum finnist áhyggjur á borð við þær sem Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, lýsti yfir óþarfar, segir hann að svo sé ekki en í samvinnu við stjórnvöld muni Landsnet gæta ýtrustu varúðar.

„Það er á okkar dagskrá að kynna þetta fyrir stjórnvöldum og fara yfir stöðuna með þeim, þannig að þetta verður gert með mjög gagnsæjum hætti gagnvart stjórnvöldum," segir Guðmundur jafnframt, spurður hvort Landsnet verði að ósk stjórnvalda um kynningu á því sem sé í vændum.

Frá undirskriftinni vegna nýju sæstrengjanna.
Frá undirskriftinni vegna nýju sæstrengjanna. Ljósmynd/Aðsend

Kínverska fyrirtækið framleiði góða strengi

Guðmundur segir markaðsaðstæður hvað varðar sæstrengi vera mjög slæmar. Hafi útboðið fylgt ströngu regluverki sem er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Tvö tilboð bárust þeim, bæði frá kínverskum fyrirtækjum.

„Hvað búnaðinn varðar frá þeim og verksmiðjurnar, þá eru þær mjög góðar, nútímalegar og framleiða góða strengi að okkar mati,“ bætir hann við.

Tryggja Eyjamönnum mikið öryggi

Guðmundur segir þá tvo strengi sem munu liggja til Vestmannaeyja tryggja Eyjamönnum gríðarmikið öryggi.

„Fyrir Vestmannaeyjar þá skiptir þessi framkvæmd gríðarlega miklu máli. Bæði til þess að tryggja öryggi og síðan áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs í Vestmannaeyjum.“

Núna liggja tveir strengir til Vestmannaeyja, er annar minni og orðinn gamall. Bilanir hafa orðið á þeim og munu þeir nýju bæta öryggið til muna, segir Guðmundur.

„Nú munum við leggja tvo nýja strengi til Vestmannaeyja og vonumst til þess í framtíðinni að vera þá með þrjá strengi og tryggjum þannig öryggi, því ef einn bilar höfum við alltaf varastrengi,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert