Verkefnið mjög flókið en einstakt

Tafir hafa verið við framkvæmdina en Björgvin segir verkefnið ganga …
Tafir hafa verið við framkvæmdina en Björgvin segir verkefnið ganga vel. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Tafir hafa verið við framkvæmdir á lúxushótelinu Höfði Lodge á Grenivík, í Eyjafirði, en Björgvin Björgvinsson, einn eiganda hótelsins, segir í samtali við mbl.is að enn sé stefnt að því að opna hótelið til prufu næsta vor og rúmlega tveim mánuðum síðar eigi að opna hótelið fyrir gestum.

Björgvin rekur einnig þyrluskíðafyrirtækið Viking Helskiing og skíðafyrirtækið Scandic Guides ásamt Jóhanni Hauki Hafstein og mun hótelið þjóna sem höfuðstöðvar þyrluskíðastarfseminnar. 

Búið er að opna fyrir bókanir hjá tíðum skíðagestum þeirra Björgvins og Jóhanns en stefnt er að því að almenningur geti byrjað að bóka sér gistingu á hótelinu í vetur. 

Hótelgestir geta notið útsýnisins og geta átt von á að …
Hótelgestir geta notið útsýnisins og geta átt von á að sjá hval. mbl.is/Þorgeir

Fokhelt í ágúst

Hótelið verður 6.000 fermetrar að flatarmáli og verða 42 hótelherbergi og 28 starfsmannaherbergi. Björgvin segir að búið sé að koma öllum herbergjum hótelsins fyrir og stefnt sé að því að húsið verði orðið fokhelt í ágúst, Upphaflega stóð til að það yrði fokhelt í maí. 

Ýmsar ástæður eru fyrir töfunum á framkvæmdinni en Björgvin segir að flókið sé að byggja á svæðinu, einkum vegna þess að það stendur á 50 metra háum kletti, 800 metrum frá Grenivík. 

Þá þurfti að leigja fjögur stór fraktskip til að flytja inn húseiningar fyrir hótelið inn til landsins.

„Verkefnið er mjög flókið en af því að það er flókið er það mjög einstakt,“ segir Björgvin. 

Útsýni yfir Eyjafjörðinn í hverju herbergi

Eins og fyrr segir er hótelið staðsett á 50 metra háum kletti, skammt frá Grenivík, og er útsýni yfir Eyjafjörðinn frá herbergjum hótelsins. 

„Það verða allir orðlausir þegar þeir koma upp á klettinn. Það bregst varla að þú sjáir ekki hval útfrá húsinu og það er náttúrulega ótrúlega einstakt,“ segir Björgvin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert