Vilja að einhver axli ábyrgð

Vegarkaflinn þar sem slysið varð 2020.
Vegarkaflinn þar sem slysið varð 2020. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Bifhjólafólk hefur efnt til mótmæla á morgun í kjölfar þess að héraðssak­sókn­ari felldi niður mál í tengsl­um við bana­slys á Kjal­ar­nesi sum­arið 2020 þar sem hjón á bif­hjóli lét­ust. Slysið varð á ný­lögðu og hálu mal­biki sem stóðst ekki kröf­ur Vega­gerðar­inn­ar.

Viðburðurinn er auglýstur á Facebook en þar kemur fram að mótmælendur ætli að hittast á Korputorgi á morgun klukkan 19 og aka saman upp á Kjalarnes, stöðva þar hjólin á báðum akreinum í stutta stund til að mótmæla og vekja athygli á þessu máli og krefjast þess að þeir aðilar sem bera ábyrgð verði látnir sæta ábyrgð.

Einhver verður að axla ábyrgð 

Atli Már Jóhannsson, einn af skipuleggjendum hópsins sem stendur fyrir mótmælunum, segir í samtali við mbl.is að málið væri sáraeinfalt. Þau vilji að einhver taki ábyrgð.

Hann segir að þetta sé alveg augljóst mál þegar meira að segja vegamálastjóri hafi viðurkennt að það hefðu orðið mistök og í skýrslu rannsóknarnefndar umferðarslysa sé það kristaltært að þeir sem komu að malbikunarframkvæmdum á sínum tíma hefðu gert mistök.

En enginn vill sæta ábyrgð og það sé vandinn, að sögn Atla.

Bifhjólahópurinn er ekki sáttur við það og því ætlar hann að mótmæla.

Spurður hvað honum finnist um niðurstöðu héraðssaksóknara um niðurfellingu málsins á grundvelli þess að málið þyki ekki líklegt til sakfellingar segir Atli það vera einfaldlega rangt.

Hann sjái ekki hvernig einn maður geti ákveðið slíkt upp á sitt einsdæmi. „Af hverju var ekki málið lagt fyrir réttinn og þar ákveðið?“ spyr hann. Hann bendir á að það þurfi ekki annað en að lesa skýrslu rannsóknarnefndarinnar til að sjá hvar sökin liggi.

Fjölmiðlar sýna mótmælunum athygli

Atli segist ánægður með þá athygli og umfjöllun fjölmiðla sem fyrirhuguðu mótmælin hafa vakið nú þegar. Það sé gott að fjölmiðlar taki þetta upp og fjalli um málið. Fólk sjái þá hvað þetta sé mikið óréttlæti.

Loks segir hann að það eina sem hópurinn vilji sé að vekja athygli á þessu máli, ekki til að vekja athygli á sér eða hópnum eða mótmælunum sem slíkum, heldur snúist það um þetta óréttlæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert