Bifhjólamenn krefjast úrbóta á vegum landsins og segja að merkingar við framkvæmdir séu víða í ólagi, sem geti reynst bifhjólamönnum lífshættulegar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sniglum en 10. júlí sóttu bifhjólamenn kynningarfund hjá Vegagerðinni í framhaldi af lagningu tilraunamalbiks á Reykjanesbraut.
„Samkvæmt fulltrúum Vegagerðarinnar á fundinum er tilraunakaflinn með þremur gerðum malbiks, sem er hefðbundið malbik, malbik með lífbindiefni úr pappírsvinnslu og malbik með lífbindiefni úr grænmetisolíum,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að hemlunarviðnám hafi verið betra á þessum köflum en áður og að fylgst verði með þróun þess og myndun hjólfara á tilraunakaflanum.
Þá voru kynntar breytingar á lagningu klæðningar að undanförnu en breyting hefur verið gerð á íblöndunarefnum og steinastærð minnkuð.
„Tekið var fram að notkun hvítspíra hefur verið hætt fyrir nokkru en var það einmitt vegna blæðinga sem það var gert. Ástæða tíðra blæðinga síðastliðinna ára er hins vegar vegna mikillar aukningar þungaflutninga og stærri bíla á vegum með klæðningu. Einnig kom fram að eftirlit með framkvæmdum hefur verið bætt m.a. með gátlistum með það markmið að framkvæmdir uppfylli kröfur um öryggi og gæði.“
Bifhjólamenn sögðu á fundinum að eftirlit með merkingum þyrfti að bæta til muna og var lögð fram krafa að settar yrðu skýrar merkingar áður en komið er inn á tilraunaverkefni á vegum Vegagerðarinnar.
Þá var þess krafist að tekin yrði upp sú vinnuregla að nota blikkljós þar sem fram færi vegklæðning og mun Vegagerðin svara því erindi á næstunni, að er kemur fram í tilkynningunni.
„Vegagerðin er að vinna að viðbragðsáætlun vegna blæðinga í klæðningu og óskaði Vegagerðin eftir að fá að senda skjalið á alla fundarmenn og fá ábendingar um það sem betur mætti fara. Bifreiðagjöld voru lögð á árið 1988 og áttu þau að vera í skamman tíma og fara í viðhald og endurbyggingu á vegum landsins.
Okkur þætti áhugavert að fá að vita hversu há þessi tala er á hverju ári og hversu mikið fer í vegakerfið okkar frá ríkisstjórn okkar. Það vantar peninga í þennan málaflokk og lítið um svör þrátt fyrir erindi Vegagerðarinnar til stjórnvalda,“ segir í tilkynningunni.
Sniglar óska eftir því að Alþingi og stjórnvöld bregðist við með frekari fjárveitingu til vegamála.
„Vill stjórn Bifhjólasamtaka Lýðveldisins Sniglar taka undir með Vegagerðinni og krefjast úrbóta, því slæmir vegir hafa meiri áhrif á akstur bifhjóla en annarra ökutækja.“