Breytinga að vænta í veðrinu

Veðrið hefur ekki beint leikið við íbúa á höfuðborgarsvæðinu í …
Veðrið hefur ekki beint leikið við íbúa á höfuðborgarsvæðinu í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir ákveðnar breytingar munu eiga sér stað í veðrinu í þessari viku. 

Veðrinu hefur verið misskipt á landinu síðustu daga. Á meðan veðrið hefur leikið við íbúa á Austurlandi og á Norðurlandi þar sem hitinn hefur farið vel yfir 20 stigin í sól og blíðu hefur rigningin gert mönnum lífið leitt sunnan- og vestantil á landinu.

„Það gerist ekki á hverju ári að við fáum svona gusur eins og voru um helgina sem betur fer,“ segir Óli Þór í samtali við mbl.is en gríðarlega úrkoma var á Snæfellsnesi alla helgina.

Besta veðrið sunnanlands um næstu helgi

Óli segir að rofa sé til á vestanverðu landinu en það verði skýjað á morgun. Hann segir að það þegar nær dregur helginni þá verði vindáttin norðlæg og þá muni sunnanvert landið klárlega hafa vinninginn fram yfir aðra landshluta.

„Það mun þá birta til á sunnan- og vestanverðu landinu með ágætum hitatölum og þá sérstaklega á Suðurlandi þar sem hitinn gæti mögulega náð 20 stigum,“ segir Óli Þór.

Þokubakkar sækja að austurströndinni

Hann segir að veðurblíðan sem hefur verið á Austurlandi sé að fjara út.

„Það er heiðskírt þar núna en það eru að sækja þokubakkar að austurströndinni. Vindáttin þar núna er austlæg en verður síðan norðaustlæg og Austfirðingum þykir hún ekkert spennandi. Dagurinn inn til landsins í dag á Austurlandi verður ágætur en þegar vindurinn fer að anda að hafi þá mun kólna í veðri. Þetta eru því síðustu droparnir af blíðunni,“ segir Óli.

Óli tekur undir það með blaðamanni að veðrið á vesturhelmingi landsins í sumar hafi ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir og það sem er af liðið júlímánuði hafi sólarstundirnar verið ansi fáar.

„Það er búið að vera grátt og blautt það sem af er júlí og það verða ekki merkilegar tölur sem koma upp úr kössunum þegar sólskinsstundirnar verða taldar. Alla vega ekki fyrri hluta mánaðarins. En veðurútlitið fyrir vestanvert landið er skárra en það hefur verið og veðrið um næstu helgi verður mun betra en verið hefur.“

Uppfært:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert