„Ekki gera meira af því sama“

Ýmis ágreiningur getur sprottið upp milli barna á leikvellinum. Atli …
Ýmis ágreiningur getur sprottið upp milli barna á leikvellinum. Atli telur hollt fyrir börn að leysa úr þeim vandamálum sín á milli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tvær meiri háttar breytingar hafa átt sér stað í lífi ungmenna á undanförnum áratugum sem trúlega tengjast versnandi námsárangri.

Annars vegar tilkoma snjalltækja og hins vegar sú staðreynd að börn verja minni tíma í frjálsum leik án eftirlits fullorðinna.

Þetta segir Atli Vilhelm Harðarson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands, í Morgunblaðinu í dag.

Ekki séríslenskt vandamál

Atli vekur athygli á að þótt færni íslenskra barna hafi farið sífellt hrakandi í PISA-könnunum undanfarin ár sé þetta ekki séríslenskt vandamál.

Þannig hafi grunnskólanemar víða um heim staðið sig verr á prófinu undanfarin ár. Því sé ekki eingöngu hægt að leita í staðbundnar íslenskar skýringar.

„Hrapið í hinum löndunum er líka óásættanlegt,“ segir Atli.

Að sögn Atla benda rannsóknir til að þær tvær stóru breytur, sem nefndar voru að ofan, hafi haft þessi áhrif.

Pössuð hverja vökustund

Atli Vilhelm Harðarson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og fyrrverandi …
Atli Vilhelm Harðarson, prófessor við menntavísindasvið Háskóla Íslands og fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands.

Hann segir ungmenni í dag alast upp undir of miklu eftirliti fullorðinna. Hamlar það að einhverju leyti þeim þroska og því sjálfstæði sem þau myndu annars öðlast með því að verja meiri tíma með jafnöldrum sínum úti að leika.

Þar geta komið upp áskoranir og ágreiningur sem þau þurfa að leysa úr sjálf án aðkomu fullorðinna.

„Þau fá ekki sjálf að ráða fram úr þeim vandamálum sem verða í leikjum, glíma við að ná sáttum ef slettist upp á vinskapinn. Þau fá ekki tækifæri til að læra þá lífsleikni sem börn hafa öldum saman lært með því að leika sér vegna þess að þau eru pössuð nánast hverja einustu vökustund og reynt er að skapa fyrir þau algjörlega hættulaust umhverfi þar sem enginn hendir sandi í augun á öðrum,“ segir Atli og heldur áfram:

„Það eru alveg til sálfræðilegar skýringar á því hvers vegna minni frjáls leikur veldur því að börn verða kvíðnari, þau eru meira í varnargírnum, þau eiga erfiðara með að takast á við vandamál daglegs lífs eins og þegar þau fá verkefni í skólanum sem þau vita ekki hvernig þau eiga að leysa. Þannig að skólagangan verður kvíðablandnari og börnin verða síður fær um að taka við kennslutilsögn ef þau fá ekki að ærslast saman drjúgan hluta dagsins eins og þau gerðu hér á árum áður.“

Tengsl á notkun snjalltækja og námsárangurs

Þá sýni rannsóknir tengsl milli notkunar á snjalltækjum og hraps í námsárangri.

„Þau eru húkkuð á samskiptamiðla alveg niður í miðstig grunnskóla þó svo að samskiptamiðlarnir ljúgi því að enginn megi nota þá nema vera 13 ára. Við vitum alveg að það er ekkert eftir því farið. Snjalltækjavæðingin virðist hafa sterk tengsl við þetta mikla hrap í námsárangri. Kennarar tala um þetta – þeir ná ekki athygli barnanna, það verður engin einbeiting því það er eitthvað að pinga á þau á fimm mínútna fresti allan daginn.“

Með þessari tækni sé búið að skapa einhvers konar áunninn athyglisbrest að sögn Atla.

„Við vitum líka að mjög víða um heim – þar fjölgar mjög tilvikum ungs fólks, barna og unglinga, sem leita til heilbrigðiskerfisins vegna kvíða og þunglyndis. Hvort það er þriðja orsökin, eða hvort kvíðinn og þunglyndið sé einfaldlega afleiðing af leikjaskorti og skjáfíkn – það er ýmislegt í deiglunni um þessi efni.“

Nánar er rætt við Atla í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka