Fagnar því að fá loksins að sæta rannsókn

Horft yfir Hólmavík.
Horft yfir Hólmavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Fyrrverandi nefndarmaður í hreppsnefnd Strandabyggðar hefur fengið kröfu sína samþykkta um að rannsókn verði gerð á þungum sökum sem honum eru bornar af starfsmönnum sveitarfélagsins. Var hann m.a. sakaður um fjárdrátt.

Jón Jóns­son, þjóðfræðing­ur og ferðaþjón­ustu­bóndi á Kirkju­bóli á Hólma­vík, segir að lykilstarfmenn sveitarfélagins Strandarbyggðar hafi sakað sig um sjálf­töku á fjár­mun­um úr sveit­ar­sjóði að upp­hæð 61.423.961 kr. þegar hann sat í hrepps­nefnd á síðasta kjör­tíma­bili sveit­ar­fé­lags­ins.

Sveitarstjórn Strandabyggðar hefur nú samþykkt að leita til endurskoðunarfyrirtækisins KPMG, sem annast endurskoðun ársreikninga sveitarfélagsins, um að gera úttekt á öllum greiðslum til Jóns.

Niðurstöður úttektarinnar verða kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Segir sveitarstjórann saka sig um fjárdrátt

Jón krafðist þess að farið yrði fram á íbúa­kosn­ingu í sveit­ar­fé­lag­inu um að gerð yrði óháð rann­sókn á þessum ásök­un­um. Jón sendi sveitarstjórn Strandabyggðar erindi þar sem hann tilkynnti um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun.

Í bréfi sem Jón sendi sveitarstjórn kemur fram að þeir starfsmenn sem báru á hann sakirnar voru annars vegar sveitarstjóri Strandarbyggðar og hins vegar íþrótta- og tómstundafulltrúi sveitarfélagsins.

Í byrjun þessa mánaðar áttu fulltrúar í sveitarstjórn og lögfræðingur sveitarfélagsins fund með Jóni Jónssyni þar sem farið var yfir fyrrgreint erindi, samkvæmt fundargerð sveitarstjórnar.

Á þeim fundi hafi m.a. komið fram að Jón væri reiðubúinn að falla frá fyrirhugaðri undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu ef sveitarstjórn samþykkti að láta fara fram úttekt á öllum greiðslum til hans svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar

Hafa til 30. september

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti að leita til KPMG um að gera úttekt á öllum greiðslum til Jóns. Þetta kemur fram í nýjustu fundargerð sveitarstjórnar.

„Við fyrrgreinda úttekt verði lagt mat á hvort fullnægjandi samþykktir eða samningar hafi staðið að baki þeim ákvörðunum af hálfu sveitarfélagsins sem lágu til grundvallar umræddum greiðslum/fjárveitingum og hvort þær hafi að öllu leyti verið teknar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, samþykkta og siðareglna Strandabyggðar,“ segir í fundargerðinni.

Úttekt skal lokið við fyrsta tækifæri og eigi síðar en 30. september næstkomandi. Niðurstöður úttektarinnar skulu kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Sveitastjórnin látið „lygaruglið grassera í samfélaginu“

Jón fagnar tíðindunum.

„Ég vil þakka öllu því fólki sem hefur sagt mér eða sent mér skilaboð um að þau vildu gjarnan skrifa undir listann minn,“ skrifar Jón á Facebook

„Þessi rannsóknin er í takt við það sem ég vil sjálfur. Við fimm sem sátum í síðustu sveitarstjórn óskuðum meira að segja eftir einmitt svona rannsókn, síðast í desember á síðasta ári. Því var hafnað af meirihluta sveitarstjórnar sem hefur heldur ekki svarað ítrekuðum kröfum okkar um skýringar og svör.“

Hann segir tímarammann skipta máli.

„Meirihluti sveitarstjórnar Strandabyggðar hefur hingað til frekar viljað láta lygaruglið grassera í samfélaginu. Vonandi er sá tími nú liðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert