Grín um aðra flokka það pólitískasta hjá Heimdalli

„Það er mjög skilvirk leið til þess að, á frekar lúmskan hátt, staðsetja sig pólitískt.“

Þetta segir Elínborg Una Einarsdóttir, blaðamaður og sviðshöfundur, um notkun stjórnmálahreyfinga á húmor í ungmennastarfi sínu. 

El­ín­borg er ný­út­skrifaður sviðshöf­und­ur og skrifaði út­skrift­ar­rit­gerð sína „Ef ég væri einmana myndi ég ganga í Sjálf­stæðis­flokk­inn“ um rann­sókn sína á ung­menn­a­starfi Heimdall­ar.

„Það er kannski það sem er mest pólitískt þarna, eða þar gætir mestrar pólitíkur. Þá er það aðallega í þeim skilningi að það er verið að gera grín að öðrum stjórnmálaflokkum og öðrum stjórnmálaöflum,“ segir Elínborg.

„Þarna er búin til einhver hugmynd um „ókei þetta er það sem við eigum ekki að vera.“

Augljóst að starfið ber árangur

Kveðst Elínborg lítið hafa orðið vör við málefnalega rökræður eða umræður á þeim viðburðum Heimdallar sem hún sótti sem hafi komið henni hvað mest á óvart í Stjórnmálaskóla Heimdallar sem hún skráði sig á í vetur.

Hún segir áherslur ungra sjálfstæðismanna augljóslega snúa að félagslegum tengslum, húmor og skemmtanagildi og efnislegri gestrisni eins og með mat, áfengi og fríu dóti. Ungmennunum sé þannig sýnt að þau séu velkomin í hópinn.

Spurð hvort annað ungmennastarf megi draga einhvern lærdóm af ungum sjálfstæðismönnum segist Elínborg ekki efast um það enda sé óneitanlega mikill metnaður lagður í starf og viðburði Heimdallar. Sömuleiðis sé augljóst að starf þeirra beri árangur ef litið er til stærðar hreyfingarinnar.

Þó megi auðvitað deila um hvaða nálganir eigi best við um slíkt starf og hvað hreyfingarnar vilji kenna sig við.

Áskrifendur geta horft á viðtalið við Elínborgu hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert