Halla vottar fjölskyldu hins látna samúð

Halla Tómasdóttir var í viðtali á CNN sjónvarpsstöðinni.
Halla Tómasdóttir var í viðtali á CNN sjónvarpsstöðinni. mbl.is/Brynjólfur Löve

Halla Tómasdóttir, verðandi forseti Íslands, vottar fjölskyldu Corey Compertore, manninum sem lést í skotárásinni á kosningafundi Donalds Trumps um helgina, samúð sína.

Halla var stödd í New York í Bandaríkjunum þegar skotárásin átti sér stað.

„Ég var afar sorgmædd þegar ég heyrði þessar fréttir,“ segir Halla í viðtali við bandaríska fréttamiðilinn CNN. Hún segir ofbeldi ekki leysa pólitíska sundrung.

Spurð hvort pólitískt ofbeldi tíðkist á Íslandi segir Halla að hér sé ólíkur veruleiki en í Bandaríkjunum, en að það sé vissulega meiri sundrung á milli hópa líkt og annars staðar í heiminum.

Þá segir Halla að það þurfi nýja nálgun í stjórnmálum og hjá leiðtogum um allan heim. 

Stjórnmálin þurfi jákvæðari nálgun

Hún segir að það sé hægt að nálgast stjórnmálin með jákvæðari hætti og að það geti haft jákvæð áhrif á pólitíska umræðu. Í því samhengi nefnir hún kosningabaráttu sína þar sem ungmenni höfðu veigamikið hlutverk. 

„Við lögðum áherslu á jákvæða kosningabaráttu og ég gerði teymi mínu og stuðningsmönnum mínum ljóst að ef einhver ætlaði ekki að stuðla að jákvæðri kosningabaráttu þá myndu þau heyra strax frá mér.“

Þá segir Halla að heimurinn þurfi leiðtoga sem geti leitt saman ólíka hópa þvert á pólitískar skoðanir, kyn og kynslóðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert