Hleðslustöðvar anna ekki eftirspurn

Stefán Guðmundsson, íbúi á Egilsstöðum, segir skort á hraðhleðslustöðvum viðvarandi …
Stefán Guðmundsson, íbúi á Egilsstöðum, segir skort á hraðhleðslustöðvum viðvarandi vandamál í landshlutanum. Ljósmynd/Tesla

Hraðhleðslustöðvar eru ekki á hverju strái á Norður- og Austurlandi, en því geta fylgt talsverð óþægindi fyrir hleðslukvíðna rafbílaeigendur sem þangað streyma í blíðviðrið um þessar mundir.

Þettu kemur fram í Morgunblaðinu í dag, mánudag.

Stefán Guðmundsson, íbúi á Egilsstöðum, segir skort á hraðhleðslustöðvum viðvarandi vandamál í landshlutanum, en hann þurfti nýverið að aðstoða ferðalanga á rafmagnsbíl, sem lent höfðu í hremmingum vegna þessa.

„Hleðslustöðvarnar hér í bænum anna ekki aðsókninni á svona sólardögum eins og nú, en það vantar fleiri hleðslustöðvar á allt Norður- og Austurlandið. Hér í bænum eru tvær af fjórum hleðslustöðvum bilaðar, en þar að auki hefur fólk verið að leita hingað t.d. frá Mývatni þar sem allar stöðvar eru bilaðar,“ segir Stefán.

Tryggja þurfi orkuöryggi

Björn Ingimarsson sveitarstjóri Múlaþings segir bilanir og langar veglengdir milli stöðva vissulega vera vandamál sem bæta þurfi úr.

„Hér í bænum eru nokkrar hleðslustöðvar, en hraðhleðslustöðvarnar mættu vera fleiri, þar sem einhverjar þeirra hafa því miður verið bilaðar nú um nokkurt skeið.“

Þó að stefnt sé að uppbyggingu fleiri hraðhleðslustöðva ætti það þó ekki að koma neinum á óvart hve fáar þær séu, enda sé raforka á svæðinu afar takmörkuð og telur Björn nauðsynlegt að úr því verði bætt sem fyrst.

„Það er eitt að setja upp hleðslustöðvar og annað að hafa aðgengi að nægu rafmagni en það hefur einfaldlega ekki verið nóg. Við höfum lengi bent á að hér þurfi að auka aðgengi að traustari orku, en það er mikilvægt að orkan sem hér er framleidd nýtist í nærsamfélaginu. Til að bæta úr þessu verður ráðist í löngu tímabærar framkvæmdir á spennistöð, í Hryggstekk í Skriðdal, á næsta ári og mun hún tengjast orkunetinu út frá Kárahnjúkavirkjun og þar með tryggja aukna orku á svæðinu,“ segir Björn og bætir við:

„Ég skil vel að menn séu óþreyjufullir, en ég er þó bjartsýnn á að þetta bætist með framkvæmdunum nú, þótt það taki tíma.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka