Í heimsókn þangað sem vegurinn endar

Spúlað af forsetabílnum eftir akstur um vestfirsku malarvegina.
Spúlað af forsetabílnum eftir akstur um vestfirsku malarvegina. mbl.is/Sigurður Bogi

„Hér stórbrotin náttúra og mannlífið eftir því. Auðvitað hefur fækkað hér mjög frá fyrri tíð þegar hér í sveitinni bjuggu um 500 manns um miðja síðustu öld. En hér er hér margt að sjá og upplifa,“ segir Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. Hann er nú að ljúka átta ára embættistíð sinni og var um helgina í opinberri heimsókn í Árneshreppi á Ströndum.

Guðni kom norður með fylgdarliði sínu á föstudag, en þá um kvöldið var samkoma fyrir íbúa í félagsheimili sveitarinnar. Svo má segja að hver atburðurinn hafi rekið annan; farið var í sjósund, heilsað upp á bændur og litið við í gömlum síldarverksmiðjum svo eitthvað sé nefnt. Formlegri dagskrá lauk í gærmorgun í Trékyllisvík, þar sem heimsótt var minja- og handverkshúsið Kört og kirkjurnar þar.

Gestrisni og góðar minningar

„Mér fannst vænt um að geta haft mína síðustu opinberu heimsókn með þessum hætti; það er með fólkinu í landinu. Byggðarlagið er afskekkt og auðvitað allt annað að koma hér um hásumar, en að vetri til. En ég hverf héðan með góðar minningar og hef notið gestristni heimafólks,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson sem í Strandaferð sinni nú slóst í för með hópi fólks úr Ferðafélagi Íslands sem gekk á fjallið Glissu. Þar á toppnum var forseti sæmdur gullmerki félagsins í þakklætisskyni fyrir stuðning hans við starf þess og eflingu lýðheilsu.

Vegir norður í Árneshreppi eru holóttir og ekki beint til að hrópa húrra fyrir, ekki frekar en ýmsum öðrum vegum á Vestfjörðum. Þar um slóðir eru samgöngumálin alltaf ofarlega á baugi. Í þessu sambandi má rifja upp að þegar Ólafur Ragnar Grímsson heimsótti Barðastrandarsýslur í upphafi forsetatíðar sinnar árið 1996 gerði hann afleita vegi þar að umtalsefni og vildi úrbætur. Margt er breytt síðan þá, en halda ber því þó til haga að bílstjóri forseta Íslands þurfti að spúla drossíu embættisins þegar komið var í Norðurfjörð, eftir langan akstur um malarvegi.

„Efalaust má hér alltaf bæta vegi. En við fórum hér alla leið og þangað sem vegurinn endar, eins og er titill frábærrar bókar Hrafns Jökulssonar heitins um þetta svæði. Efalaust má gera betur í vegamálum eins og mörgu öðru. En við komumst leiðar okkar og þökkum fyrir,“ segir Guðni Th. Jóhannesson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert