Íslensk myndlist til sýnis erlendis

Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir …
Ingibjörg Jóhannsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hafa undirritað samninginn. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Nýr samstarfssamningur um kynningu á íslenskri myndlist erlendis hefur verið undirritaður af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Ingibjörgu Jóhannsdóttur, safnstjóra Listasafns Íslands.

„Samstarfið við Listasafnið er okkur dýrmætt og hefur stuðlað að því að sendiskrifstofur Íslands erlendis eru ríkulega búnar íslenskri myndlist eftir fjölbreytta flóru íslenskra listamanna þannig að eftir er tekið,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Vilja kynna listaverkin betur

Fyrsti samstarfssamningur utanríkisráðuneytisins og listasafnsins var gerður árið 2021, en markmið samstarfsins er að vekja athygli á íslenskri myndlist erlendis. Miðað er við að allt að 150 verk frá listasafninu verði að jafnaði til sýnis á sendiskrifstofum Íslands hverju sinni.

Að sögn Ingibjargar eru nú verk frá listasafninu, eftir um 50 listamenn á 19 sendiskrifstofum um allan heim. Með nýja samningnum verður lögð meiri áhersla á kynningu verkanna, meðal annars með QR við hvert verk til upplýsingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert