Kourani dæmdur í átta ára fangelsi

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.

Mohamad Kourani hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir stunguárás í versluninni OK Market ásamt öðrum brotum. Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness, en dómur var kveðinn upp nú fyrir skömmu.

Kourani hefur setið í varðhaldi frá árásinni sem átti sér stað 7. mars. Dregst varðhaldið frá refsingu hans. Þá er Kourani gert að greiða fórnarlömbum sínum annars vegar 1,5 milljónir og hins vegar 750 þúsund í bætur vegna árásarinnar. Þá er honum gert að greiða 4,8 milljónir í sakarkostnað, meðal annars 3,2 milljónir í málsvarnarlaun verjanda síns.

Mohamad Kourani var ákærður fyr­ir til­raun til mann­dráps og stór­fellda lík­ams­árás þegar hann gekk inn í versl­un OK Mar­ket á Hlíðar­enda og stakk tvo menn.

Ásamt því er hann ákærður fyr­ir að hafa hótað lög­reglu­manni og fjöl­skyldu hans líf­láti, henda vökva af óþekkt­um toga í and­lit lög­reglu­manns og að hrækja í and­lit ann­ars lög­reglu­manns.

Kourani neitaði sök í öllum ákæruliðum og fór fram á sýknudóm.

Fjölskyldan flúði land vegna Kourani

Saksóknari í málinu hafði farið fram á 6-8 ára dóm yfir Kourani, en við aðalmeðferð málsins sagði hann brotavilja Kourani vera einbeittan í öllum tilvikum og að hann hefði ekki sýnt neina miskunn eftir brotin og haldi áfram hótunum.

Við aðalmeðferð kom fram að Kourani hafi hótað eiganda OK Market lífláti árum saman og lýst því hvernig hann ætlaði að fremja verknaðinn. Leiddu þessar hótanir meðal annars til þess að eigandinn sendi fjölskyldu sína úr landi af ótta við hótanir Kourani. Þá lýstu lögreglumenn því hvernig Kourani hafi hótað nokkrum sinnum að hann myndi drepa þá og fjölskyldur þeirra.

Áður hlotið dóm og hótaði vararíkissaksóknara um árabil

Vararíkissaksóknari hefur einnig stigið fram og upplýst að Kourani hafi um árabil staðið í hótunum við sig, en Kourani hlaut áður dóm fyrir þær hótanir, líkamsárás, húsbrot, brot gegn nálg­un­ar­banni, eigna­spjöll, brot gegn sótt­varna­lög­um, brot gegn vald­stjórn­inni, fyr­ir að gabba lög­reglu, brot gegn vopna­lög­um, skjalafals og um­ferðarlaga­brot.

Mál Kourani hefur vakið mikla athygli og meðal annars orðið til þess að dómsmálaráðherra hefur sagt að breytingar séu nauðsynlegar á lögum þannig að hægt sé að afturkalla alþjóðlega vernd í þeim tilfellum sem flóttamaður gerist sekur um alvarlegan glæp eða ógnar þjóðaröryggi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert