Lúsmý staðfest á Austurlandi

Lúsmý hefur verið staðfest á Austurlandi en flugurnar geta valdið …
Lúsmý hefur verið staðfest á Austurlandi en flugurnar geta valdið óþægindum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðfest hefur verið að lúsmý hafi fundist í Eiðaþinghá skammt frá Egilsstöðum.

Þetta er eina staðfesta tilfellið á Austurlandi samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir.

Austurfrétt greindi fyrst frá, en eins og þekkt er orðið getur lúsmý valdið talsverðum óþægindum með biti sínu.

„Ég er ekkert hissa á að Austfirðirnir fari ekki varhluta af þessari flugu,“ segir Gísli Már Gíslason, vatnalíffræðingur og prófessor emeritus í dýrafræði við HÍ, í samtali við mbl.is.

„Það er nú enginn sem hefur fylgst með stofnstærðum lúsmýs en við höfum fylgst með útbreiðslunni og og hún er að aukast jafnt og þétt, það lítur út fyrir að lúsmý sé næstum því komið út um allt land.“

Engin leið til að stoppa þetta

Að sögn Gísla virðist það vera sem fólk í sumarbústöðum á Vesturlandi, í Kjósinni og í Borgarfirði, og svo á Suðurlandi í Grímsnesi og Biskupstungum, kvarti mest undan þessu. 

„Það er engin leið að stoppa þetta, það sem fólk getur gert er að passa að þetta berist ekki inn í hús,“ segir Gísli og nefnir að gott sé að setja net fyrir dyr og glugga ásamt því að nota skordýrafælu sem hægt er að fá í apótekum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka