Ingibjörg Benediktsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í sveitarstjórn Norðurþings, telur að áform um nýjan skóg í brekkunum fyrir Saltvík, sunnan við Húsavík, muni eyðileggja þar berjaland.
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti í janúar tillögu skipulags- og framkvæmdaráðs um að úthluta Yggdrasli Carbon landi til skógræktar fyrir ofan Saltvík. Nú er ferlið hafið að gróðursetja rúmlega 290 þúsund tré.
Ingibjörg Benediktsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í sveitarstjórn, lýsir áhyggjum sínum af fordæmisgildinu sem þessi úthlutun geti haft, sérstaklega þar sem engin gjöld koma til sveitafélagsins út frá verkefninu.
„Það er fordæmisgefandi að úthluta þessu landi og svo kemur eitthvað annað fyrirtæki og vill fá landið við hliðina á, eigum við þá bara að samþykkja það líka?“ spyr hún.
„Mér finnst galið að úthluta stóru svæði fyrir einhvern kolefnisskóg sem er rekinn af einkafyrirtæki,“ bætir hún við.
Hún telur einnig að stafafuran sem á að gróðursetja muni dreifa sér og eyðileggja berjalandið á svæðinu.
„Þeir ætla að gróðusetja mikið af stafafuru og passa að hún fari ekki í berjalautir og fleira, en það vita allir sem eru í skógrækt að stafafura stráir sér og dreifir sér, þannig að þetta mun eyðileggja berjalandið,“ segir Ingibjörg.
Tók sveitarstjórn nógu mikið tillit til athugasemda Náttúrustofunnar?
„Nei, þær athugasemdir voru ekki teknar alvarlega,“ segir Ingibjörg.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.