„Þetta eru fáheyrðar tölur“

Kirkjufell við Grundarfjörð.
Kirkjufell við Grundarfjörð. mbl.is/RAX

„Það lá úrkomubelti yfir vestanverðu landinu og ekki síst yfir Snæfellsnesinu, sem var stöðugt og hreyfðist ekkert og það kom stöðugt meiri úrkoma inn í það.“

Þetta segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá veðurvakt Bliku, í samtali við mbl.is en mikið rigndi á Snæfellsnesi, ofanverðum Mýrum, við innanverðan Breiðafjörð og í Dölum alla helgina.

Hissa á að skriður hafi ekki fallið

Í Grundarfirði var úrkomumagnið gríðarlegt en á tveimur sólarhringum mældist samtals 325 millimetra úrkoma.

„Þetta eru fáheyrðar tölur og það hefur verið talað um að þetta sé met í júlímánuði. Það gerist ekki oft að sólarhringsúrkoma fari yfir 200 millimetra og hvað þá að sumarlagi. Það gerist einstaka sinnum að hausti og þá sunnan undan Vatnajökli eða á þeim stöðum þar sem við þekkjum að komi mikil rigning,“ segir Einar.

Hann segist hissa á því að hvergi hafi orðið nein skriðuföll eða jarðföll í þessu mikla vatnsveðri.

Veðrið getur orðið mjög gott fyrir austan

Á sama tíma og það rigndi eldi og brennisteini á vestaverðu landinu hefur veðrið svo sannarlega leikið við íbúa á Austurlandi og á Norðurlandi.

Hitinn hefur farið vel yfir 20 stig dag eftir dag fyrir austan og í gær mældist 26,9 stiga hiti við Egilsstaðaflugvöll. Það er mesti hiti sem hefur mælst á þessu ári.

„Það gerist oft á sumrin, þegar það leggst í hagstæðar vindáttir, þá getur veðrið orðið mjög gott fyrir austan sem getur staðið yfir í eina viku eða lengur. Þetta veðurfar er því ekkert óvanalegt. Við sjáum svona hitatölur af og til á Austurlandi eða Norðausturlandi,“ segir Einar.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert