Tjón eftir úrkomumet: „Landslagið er gjörbreytt“

Yfir þjóðveg 54 flæddi rétt vestan við þéttbýlið.
Yfir þjóðveg 54 flæddi rétt vestan við þéttbýlið. Ljósmynd/Aðsend

Úrkomumet í júlí féll í Grundarfirði um helgina en sólarhringsúrkoman var 221,1 mm frá klukkan 9 á laugardagsmorgun til klukkan 9 í gærmorgun.

Aldrei áður hefur mælst meiri úrkoma á sjálfvirkum mælum Veðurstofu Íslands í júlímánuði.

„Þetta var einum of mikið af því góða. Þetta var svo langur tími sem rigndi stöðugt og mér skilst að við höfum slegið júlímet yfir sólarhringsúrkomu. Það byrjaði að rigna síðdegis á föstudaginn og rigndi nánast látlaust fram til kvölds í gær,“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði, í samtali við mbl.is.

Framburður Hrafnsár hefur valdið landbroti.
Framburður Hrafnsár hefur valdið landbroti. Ljósmynd/Aðsend

Áin náði að éta úr landinu

Björg segir að aur hafi flætt úr Innri-Búðaá sem er rétt við þéttbýlið og farið yfir reiðveginn sem er gamli þjóðvegurinn í átt til Ólafsvíkur.

„Við þurfum eitthvað að gera við þennan reiðveg og líklega á tveimur stöðum,,“ segir Björg.

„Í Kolgrafafirði á sveitarfélagið land sem er nýtt fyrir skotæfingasvæði Skotfélags Snæfellsness. Þar hefur áin Hrafnsá farið hressilega af stað og hefur náð að éta úr landinu þar sem skotæfingasvæðið er. Þar er tjón sem við þurfum að takast á við.“

Víða liggur vatn yfir túnum eftir úrhellið um helgina.
Víða liggur vatn yfir túnum eftir úrhellið um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Ekki gott fyrir þjóðvegina

Hún segist ekki hafa heyrt um neinar skemmdir á þjóðveginum sjálfum en hins vegar sé það ekki gott fyrir þjóðvegina þegar vatn flæði yfir þá.

„Manni finnst það ekki ábætandi því ástandið á þjóvegunum okkar er ekki gott,“ segir bæjarstjórinn.

Bæjaryfirvöld hafi fengið ábendingar um bílastæði sem hafi ekki ráðið við vatnsflauminn og það sé gríðarlegt álag á innviðina og ekki síst fráveitukerfið þegar rigni svona mikið.

„Landslagið er gjörbreytt. Það lá vatn yfir túnum og maður á eftir að sjá hvaða áhrif það hefur. En það er fínasta veður hjá okkur núna, bjart og þurrt. Það styttir alltaf upp aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert