Vilja ekki sjá Kjalölduveitu í verndarflokki

Horft frá Kvíslaveituvegi yfir að Þjórsárveri. Í bakgrunni má sjá …
Horft frá Kvíslaveituvegi yfir að Þjórsárveri. Í bakgrunni má sjá Múlajökul í Hofsjökli og Arnarfell hið mikla. mbl.is/Þorsteinn

Framkvæmdastjóri vatnsorku hjá Landsvirkjun segir fyrirtækið munu beita sér gegn því að Kjalölduveita verði færð í verndarflokk eins og lagt er til í tillögum að nýrri rammaáætlun. Hann segir aukna orkueftirspurn kalla á framkvæmdir og að talsverð orka myndi fást úr Kjalölduveitu.

mbl.is greindi í síðustu viku frá slakri vatnastöðu í lónum Landsvirkjunar. Júní var kaldur og þurr sem gerði það að verkum að ekkert bættist í Blöndulón og hægt hefur á fyllingu Þórisvatns. 

Síðustu miss­eri hef­ur Lands­virkj­un þurft að grípa ít­rekað til skerðinga á af­hend­ingu á raf­orku til viðskipta­vina vegna lakr­ar stöðu í lón­um.

Flakkar milli flokka

Einn framkvæmdakostur sem Landsvirkjun hefur skoðað til að bæta vatnsbúskap í Þórisvatni og auka þar með orkuframleiðslu er svokölluð Kjalölduveita, sem myndi veita vatni úr Þjórsá í Þórisvatn og þaðan inn í röð virkjanna.

Framkvæmdin, sem hefur verið nokkuð umdeild, hefur verið líkt við Norðlingaölduveitu. Var það veituframkvæmd sem er örlítið ofar í Þjórsá og þótti of nálægt friðlandinu í Þjórsárveri.

Virkjanir á Þjórsársvæðinu fá meðal annars vatn úr Þórisvatni, þar …
Virkjanir á Þjórsársvæðinu fá meðal annars vatn úr Þórisvatni, þar sem vatnsbúskapur hefur ekki verið upp á sitt besta. Ljósmynd/Landsvirkjun

Alþingi samþykkti árið 2022 að færa Kjalölduveitu úr verndarflokki í biðflokk rammaáætlunar. Var það gert á þeim grundvelli að verkefnastjórn ætti að yfirfara virkjanakostinn þar sem Kjalölduveita hefði ekki verið metin með hefðbundnum hætti.

Helgaðist það af því að verkefnastjórn hafði flokkað Norðlingaölduveitu í verndarflokk og talið Kjalölduveitu sambærilegan kost og hún því fengið sömu örlög.

Í nýjum tillögum verkefnastjórnar rammaáætlunar frá því í apríl er lagt til að Kjalölduveita færist aftur í verndarflokk og fái því sömu flokkun og áður hafði verið.

Náttúruverndarhópar hafa lagst gegn framkvæmdinni og vilja meina að hún kæmi til  með að hafa áhrif á friðlandið í Þjórsárveri.

Leggja áherslu á að halda veitunni inni

„Við viljum náttúrulega leggja áherslu á að halda [Kjalölduveitu] inni í biðflokki. Þetta er mjög hagkvæmur kostur og umhverfisvænn að okkar mati. Við viljum auðvitað ekki sjá hana fara í verndarflokk,“ segir Gunn­ar Guðni Tóm­as­son, fram­kvæmda­stjóri vatns­afls hjá Lands­virkj­un, í samtali við mbl.is.

Hann segir að um sé að ræða framkvæmd sem myndi bæta vatnabúskap og hjálpa í orkuöflun: „Við fengjum talsvert mikla orku út úr þessari framkvæmd.“

„Við munum beita okkur fyrir því að halda henni í biðflokkunum, hún er ekki á dagskrá hjá okkur og er ekkert á leiðinni í nýtingarflokk. Við erum ekkert að vinna í henni en leggjum áherslu á að henni sé haldið þar,“ segir Gunnar.

Á níunda áratugnum reisti Landsvirkjun stíflur þar sem vatni úr …
Á níunda áratugnum reisti Landsvirkjun stíflur þar sem vatni úr nokkrum ám sem runnu í Þjórsá var beint í Þórisvatn. Kallaðist framkvæmdin Kvíslaveitur. Voru þetta Stóraverskvíslar, Svartá, Þúfuverskvíslar, Eyvindarverskvíslar og Hreysiskvíslar. Hér er horft yfir eitt þeirra lóna sem varð til við þá framkvæmd, Kvíslarvatn. mbl.is/Þorsteinn

Lítil umhverfisáhrif

Gunnar telur að framkvæmdin myndi ekki hafa mikil neikvæð áhrif:

„Þetta hefur áhrif á rennsli í Efri Þjórsá og rennsli í fossa í ánni. Það eru fyrst og fremst umhverfisáhrifin og það eru sannarlega áhrif.

En við erum ekkert að taka rennsli af fossunum, það mun minnka á ákveðnum árstímum. Svo eru aðrir sem halda fram að það séu önnur áhrif eins og inn í Þjórsárver sem er ekki að okkar mati. Þjórsárver er langt frá þessu.“

Eftirspurnin kallar á framkvæmdir

Þá talar Gunnar um að það sé í raun ekki slakur vatnsbúskapur sem kalli á framkvæmdir heldur aukin eftirspurn eftir orku.

„Vatnsbúskapurinn og skerðingarnar út af honum er eðlilegur rekstur en síðan vantar bara orku. Það er meiri eftirspurn eftir orku og þá þurfum við að komast í framkvæmdir til að geta sinnt þeirri eftirspurn.“

Í þessum efnum segir Gunnar Landsvirkjun leggja áherslu á framkvæmdir í Hvammsvirkjun og Búrfellslundi, sem og stækkun Sigvaldastöðvar og Þeistareykjastöðvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert