„Að mestu leyti tengt einu fyrirtæki“

„Þá er svolítið leiðinlegt og amalegt að þeir virðast vera …
„Þá er svolítið leiðinlegt og amalegt að þeir virðast vera að sýna þetta andvaraleysi,“ segir Tómas um N1. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon/Eggert Jóhannesson

Formaður Rafbílasambands Íslands, Tómas Kristjánsson, gagnrýnir N1 fyrir andvaraleysi gagnvart hraðhleðslustöðvum fyrirtækisins við vegi landsins.

„Ef maður skoðar frásagnir fólks af biluðum hleðslustöðvum, þá virðist þetta að mestu leyti tengt einu fyrirtæki,“ segir Tómas.

Hann segir að að sjálfsögðu geti svona búnaður bilað eins og hvað annað – en að hafa bilaðan búnað í fleiri mánuði, það upplifi hann ekki hjá öðrum söluaðilum.

„Það er ákveðið andvaraleysi, sem er svolítið sérstakt af því að N1, verandi með bensínstöðvar um allt land, voru í ákveðinni príma-aðstöðu til þess að verða svolítið stórir á markaðnum,“ segir hann.

„Þá er svolítið leiðinlegt og amalegt að þeir virðast vera að sýna þetta andvaraleysi.“

Biluð í að minnsta kosti nokkra mánuði

Mikill fjöldi fólks heimsótti Egilsstaði um helgina sökum blíðviðris þar eystra og greindi Morgunblaðið frá því að hraðhleðslustöðvar í bænum hefðu ekki annað aðsókn, en í bænum séu þær einungis fjórar.

Þá hafði hraðhleðslustöð N1 á Egilsstöðum verið biluð í að minnsta kosti nokkra mánuði.

„Ég hugsa alla vega að ef bensíndæla væri biluð þarna á Austurlandinu, þá myndi ekki taka fleiri mánuði að gera við hana. Það er svona mín tilfinning,“ segir Tómas.

Álag var á hraðhleðslustöðvum á Egilsstöðum um helgina, þeim sem …
Álag var á hraðhleðslustöðvum á Egilsstöðum um helgina, þeim sem virkuðu það er að segja. mbl.is/Sigurður Bogi

Ástandið verra fyrir austan

Tómas telur að staðan hvað varðar fjölda hraðhleðslustöðva á landsbyggðinni sé best í kringum höfuðborgarsvæðið.

„Bestu svæðin eru í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem flestir rafbílarnir eru. Þetta eru einkafyrirtæki sem reka þessar hleðslustöðvar og þau þurfa að vera staðsett þar sem rafbílarnir eru.“

Á Austurlandi segir hann ástandið verra, sérstaklega þegar margir ferðamenn fara austur í góða veðrinu.

„Þegar fólk kemur austur, þá eru innviðirnir sem eru til staðar bara gerðir fyrir þá fáu rafbíla sem eru á svæðinu. Það eru nokkrar ástæður fyrir þessu, til dæmis er erfitt fyrir fyrirtækin að fá lóðir og komast í gegnum deiliskipulag,“ segir Tómas.

Sveitarfélög leggjast sum gegn uppsetningu

Hann bendir á að erfitt sé fyrir fyrirtæki sem bjóða upp á hraðhleðslustöðvar fyrir rafbíla að fá lóðir. Tíma tekur að komast í gegnum deiliskipulag til að setja upp hleðslustöðvar, og sum sveitarfélög hafa lagst gegn þessu, sem hindrar uppbyggingu.

Því sé ekki alltaf hægt að kenna fyrirtækjunum einum um ástandið; sveitarfélögin verði einnig að axla ábyrgð.

Þá segir hann að sum sveitarfélög hafi lagst gegn uppsetningu hraðhleðslustöðva og bendir einnig á að hækkun gjaldskrár Rarik um 20% bæti ekki úr skák.

„Kostnaður við dreifingu rafmagns er um helmingur af heildarverðinu og hækkunin kemur aðallega niður á þeim sem eru að selja rafmagn úti á landi. Þetta hefur mikil áhrif,“ segir hann.

N1 stefnir að fjölgun hraðhleðslustöðva

mbl.is greindi frá því í febrúar á þessu ári að N1 og Tesla hefðu undirritað rammasamning um að byggja upp hraðhleðslustöðvar við þjónustustöðvar N1 víða um landið á næstu tveimur árum. Markmiðið er að yfir 150 ný hraðhleðslustæði komi út úr þessu samstarfi.

„Upp­bygg­ing Tesla verður við eft­ir­far­andi þjón­ustu­stöðvar N1: Borg­ar­nesi, Blönduósi, Eg­ils­stöðum, Vík, Ísaf­irði, Hring­braut, Kirkju­bæj­arklaust­ur, Hvera­gerði, Kefla­vík og Ártúns­höfða sam­hliða fjölg­un hleðslu­stæða þar sem Tesla er nú þegar við Staðarskála og í Foss­vogi,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækjunum N1 og Tesla frá því febrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka