Auknar líkur á eldgosi innan Grindavíkur

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mjög miklar líkur eru á kvikuhlaupi eða eldgosi á næstu þremur vikum. Þetta segir í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Segir þar að samkvæmt líkanreikningum sé áætlað að um þrettán milljónir rúmmetrar af kviku hafi bæst við í kvikuhólfið undir Svartsengi.

„Í dag er magn kviku sem bæst hefur við komið að lægri mörkum þess magns kviku sem talið er þurfa að bætast við til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi,“ segir í tilkynningunni.

Hættumat Veðurstofu fyrir Grindavík og nágrenni 16. júlí.
Hættumat Veðurstofu fyrir Grindavík og nágrenni 16. júlí. Kort/Veðurstofa Íslands

Gosvirknin færist sunnar

Nýtt hættumat fylgir tilkynningunni.

Með því er tekið fram að nýjustu greiningar á því, hvernig staðsetning gosopnunar hafi þróast í síðustu eldgosum á Sundhnúkagígaröðinni, bendi til þess að gosvirknin færist sunnar og nær Grindavík með hverjum atburði.

„Með hliðsjón af þessum greiningum og ef tekið er tillit til þess að frá því í nóvember 2023 hafa jarðhræringarnar valdið umtalsverðum sprunguhreyfingum innan Grindavíkur, endurspeglar þetta hættumat auknar líkur á að hraun komi upp innan svæðis 4 – Grindavík – í næsta eldgosi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert