Best að skella á og hringja strax í bankann

Netsvik hafa færst í aukana að undanförnu.
Netsvik hafa færst í aukana að undanförnu. Ljósmynd/Colourbox

Erfitt er að eiga við tilfelli þegar svikahrappar hringja í fólk og segjast til dæmis vera bankastarfsmenn eða frá Microsoft og reyna í kjölfarið að fá viðkomandi til að framkvæma aðgerðir. Best er að leggja strax á ef fólk er í óvissu.

Þetta segir Brynja María Ólafs­dótt­ir, sérfræðingur í reglu­vörslu Lands­bank­ans, spurð út í þessi netsvik sem hafa færst í aukana að undanförnu.

Meðal annars hafa svikahrapparnir þóst hringja úr íslenskum símanúmerum. 

Hringja í símanúmer bankans

„Það er svo mikilvægt að allir viti að ef fólk heldur að það sé eitthvað grunsamlegt í gangi þegar það fær símtal frá aðila sem hefur ekki verið í samskiptum við það áður og vill aðstoða með tölvur eða bankaupplýsingar að skella á símtalið og hringja svo í raunverulegt símanúmer hjá bankanum til að fá aðstoð," segir Brynja María.

Hún ítrekar við starfsmenn sína að vanda sig í samskiptum við viðskiptavini til að þeir finni ávallt fyrir öryggi og trausti.

„Þetta er hætta sem er búin að vera í gangi í mjög langan tíma í öðrum löndum. Við höfum beðið á hliðarlínunni með að þetta sé að fara að gerast hjá okkur," segir hún og bætir við að stutt sé síðan fyrsta raunverulega dæmið um þetta kom upp hjá viðskiptavini bankans.

Landsbankinn.
Landsbankinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frysting en ekki millifærsla

Viðskiptavinir verða að hafa í huga, að sögn Brynju, að ef bankastarfsmaður hringir heim til þeirra og segir að búið sé að brjótast inn í heimabankann þeirra þá frysti bankinn ávallt reikningana á meðan verið er að ná utan um svikin.

Bankinn óskar aldrei eftir því að fólk færi fjármuni sína á milli reikninga.

Lögreglan á höfuðborgarborgarsvæðinu varar einmitt við svikasímtölum á facebooksíðu sinni, auk þess sem öryggissveitin CERT-IS hefur gert slíkt hið sama.

Geta sjálfir stjórnað í appinu 

Landsbankinn gerði nýverið breytingar á appi sínu til að auðveldara sé fyrir viðskiptavini að verjast netsvikum, til dæmis með því að loka á notkun korta í hraðbönkum eða í erlendum viðskiptum.

Brynja segir bankann alltaf hafa boðið upp á þennan möguleika en núna geti viðskiptavinir í fyrsta sinn sjálfir stjórnað þessu í appinu.

„Ég held að fólki líði mun betur með að geta stjórnað þessu sjálft," segir hún og nefnir að þessi nýjung geti einnig nýst fólki til að aðstoða börn eða eldra fólk við að stjórna aðgerðum sínum.

Aldrei í gegnum þriðja aðila

Mikið hefur verið um það undanfarin misseri að viðskiptavinir banka hafa fengið sms eða tölvupósta sem líta út fyrir að vera frá Auðkenni, island.is eða Póstinum.

Ýmsir hafa fallið fyrir þessu með því að smella á hlekkina og samþykkja auðkenningu í rafrænum skilríkjum vegna þess að þeir halda að þeir séu að skrá sig inn í bankaappið.

„Það sem allir þurfa að vita og er mikilvægasta reglan í þessu öllu er að þú skráir þig aldrei inn í bankaöpp í gegnum þriðja aðila eins og audkenni.is og island.is heldur farir sjálfur alltaf beint inn í bankaapp eða inn á vefsíðu banka," bendir Brynja á og segir einnig afar mikilvægt að lesa mjög vel allar auðkenningar sem koma á skjáinn við notkun rafrænna skilríkja.

Ljósmynd/Colourbox

Háannatíð á sumrin

Hún segir háannatíð vera í svikamálum um þessar mundir, líkt og undanfarin ár.

Treyst sé á að fólk sé í sumarfríi úti á landi eða erlendis og samþykki auðkenningu eða ýti á hlekki í hugsunarleysi. 

Hvetur hún fólk til að vera á varðbergi gagnvart þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert