Blíðviðrið olli eldsneytisleysi

Bensínlaust varð í stutta stund á N1 á Egilsstöðum í …
Bensínlaust varð í stutta stund á N1 á Egilsstöðum í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Árni Gunnarsson framkvæmdastjóri Olíudreifingar segir að taka þurfi veður með í reikninginn í ríkara mæli en gert hefur verið þegar ákvarðanir eru teknar um dreifingu eldsneytis.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Á sunnudaginn varð bensínlaust í blíðunni á N1 Egilsstöðum í um klukkustund og í upphafi mánaðar kom upp svipuð staða í Staðarskála.

Árni segir að ástæðurnar að baki bensínskortinum séu þó ólíkar, í Staðarskála var um mannleg mistök að ræða þar sem ekki var fyllt á á réttum tíma en á Egilsstöðum var ekki gert ráð fyrir svo mikilli sölu.

„Annars vegar sást yfir að fylla á í Staðarskála en á Egilsstöðum er tekin ákvörðun um að fylla ekki á fyrir helgina. Síðan kemur í ljós á sunnudegi að það er gríðarlega mikil sala og þá er brugðist við því, en því miður með þeim annmörkum að ekki var hægt að selja þarna í eitthvað í kringum klukkutíma,“ segir Árni.

Veður með besta móti

Veður var með besta móti á Austulandi um helgina og fór hitinn í hátt í þrjátíu gráður á Egilsstöðum þegar best lét. Landsmenn flykktust því austur eins og við mátti búast.

Spurður hvort Olíudreifing taki ekki þætti á borð góða veðurspá með í reikninginn segir Árni: „Jú, við þurfum bara að taka það meira inn í reikninginn þegar við erum að ákveða þessa hluti. Við þurfum að skoða það enn betur en við höfum gert hingað til.“

„Við þurfum að fara betur yfir plönin þegar við erum að skipuleggja dreifinguna. Passa að fleiri atriði séu tekin inn í, sem er oft gert en var ekki í þessu tilfelli,“ segir Árni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert