Unnið er að ítarlegum hreinsunaraðgerðum í leiguíbúðum við Vatnsholt 1 til 3 eftir að Legionella-bakterían, sem veldur hermannaveiki, fannst í lögnum.
Í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur segir að einn hafi greinst með hermannaveiki.
Þetta er í annað sinn sem farið er í útskolun á lagnakerfi í húsinu síðan að smit greindist þar í júní þar sem sú fyrri bar ekki nægilegan árangur. Stefnt er að því ljúka hreinsunaraðgerðum í vikunni.
Húsnæðið sem um ræðir er í eigu Leigufélags aldraðra sem býður upp á leiguíbúðir fyrir fólk sem er 60 ára og eldra.
Fulltrúar fyrirtækisins Eignaumsjón ehf. vildu ekki tjá sig um málið þegar sóst var eftir því en fyrirtækið sér um rekstur fyrir Leigufélag aldraðra.
Hermannaveiki er alvarlegri hjá eldra fólki og þá sem hafa aðra áhættuþætti. Fullfrískir einstaklingar geta smitast af bakteríunni án þess að veikjast, segir í tilkynningunni.
Heilbrigðiseftirlitið tók sýni í íbúð í Vatnsholti að beiðni sóttvarnalæknis í lok maí vegna gruns um vöxt Legionella í baðvatni. Sýnatökur staðfestu vöxt í þeim sýnum.
Í kjölfarið var ákveðið að taka sýni úr öðru húsi þar sem þau eru sambærileg.
„Þann 1. júlí voru einnig tekin sýni í öðru húsi. Var það gert þar sem húsin eru sambærileg en á þeim tímapunkti voru ekki vísbendingar um smit í því húsi. Frumniðurstöður úr þeirri sýnatöku staðfestu smit,“ segir í tilkynningunni.
Heilbrigðiseftirlitið segir að um staðbundið smit sé að ræða og að það hafi ekki borist úr dreifikerfi kalda vatnsins.