Forstjóri SS: „Þú grillar ekki pasta“

Í sláturhúsi SS á Selfossi.
Í sláturhúsi SS á Selfossi. mbl.is/RAX

Forstjóri Sláturfélags Suðurlands segir sölu á kjöti verulega háða veðri yfir sumarmánuðina. Sala á kjöti frá félaginu hefur aukist um 30% í verslun á Egilsstöðum fyrstu tvær vikur júlímánaðar en dregist saman um 20% á höfuðborgarsvæðinu.

Það sem af er júlímánuði hefur veður verið með besta móti á Norður- og Austurlandi en hitinn náði hæst rúmum 27 gráðum á Egilsstöðum um helgina.

Á sama tíma hefur gengið á með skúrum og roki á suðvesturhorninu og eitthvað verið um gular viðvaranir frá Veðurstofunni á svæðinu.

Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands.
Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Getur munað tugum prósenta

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir að veðurfar að sumri hafi mikil áhrif á sölu grillmatar:

„Við sjáum nákvæmlega eftir verslunum hvað selst og við sjáum náttúrulega að það er verulega háð veðri. Ef fyrstu tvær vikurnar í júlí eru skoðaðar þá er samdráttur á suðvesturhorninu en aukning víða úti á landi, það er að segja norðan- og austanmegin. Þau geta alveg munað tugum prósenta þessi veðuráhrif.“

Sólin hvetur til kjötneyslu

Þá tekur hann fram að það sé ekki aðeins leit landsmanna að sólinni sem valdi þessum miklu veðursveiflum í sölu kjötvöru.

„Ég held líka að kjöt sé stærri hluti af neyslu þegar þú grillar en þegar þú grillar ekki. Þannig hefur veðrið áhrif á kjötneyslu. Þú grillar ekki pasta á grillinu hjá þér.“

Spurður hvort SS bregðist þá sérstaklega við veðurspám segir Steinþór að sölumenn félagsins fylgist vel með og dragi úr og stækki pantanir í samráði við verslanir.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert