Saksóknarar á ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið ákvörðun um að hætta rannsókn máls er varðar ætlað kynferðisbrot skipverja grænlenska togarans Polar Nanoq.
„Það var metið sem svo að það væri ekki grundvöllur til að halda rannsókn málsins áfram,“ segir Árni Bergur Sigurðsson, saksóknari hjá ákærusviði lögreglunnar, í samtali við mbl.is.
Enginn er því með réttarstöðu sakbornings í málinu en Árni staðfestir að enginn sæti gæsluvarðhaldi í tengslum við málið.
Árni upplýsir ekki nánar um ástæður fyrir því að hætt var að rannsaka málið en nefnir þó að enn sé hægt að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara.
Útskýrir hann að 30 daga frestur sé til að kæra ákvarðanir af þessum toga og að fresturinn sé ekki liðinn í þessu tiltekna máli.
Lögreglan hóf rannsókn máls vegna gruns um kynferðisbrot í Hafnarfirði í júní en ekki var þá staðfest hvort rannsóknin beindist að skipverja um borð í togaranum.
Staðfest var í byrjun júlímánaðar að rannsókn lögreglu á málinu væri lokið og að Polar Nanoq og skipverjar þess hafi tengst henni.