Hættan komi sérstaklega fram við eldpiparáts-áskoranir

Danir ákváðu nýlega að innkalla og banna núðlurnar vegna hættulegs …
Danir ákváðu nýlega að innkalla og banna núðlurnar vegna hættulegs magns kap­saísíns. Ljósmynd/Samyang

Matvælastofnun mun áfram fylgjast með þróun þessara mála í tengslum við bann Dana á þremur tegundum af Buldak-núðlunum vinsælu. 

Þetta segir í skriflegu svari Katrínar Guðjónsdóttur, deildarstjóra matvæladeildar MAST, við fyrirspurn mbl.is.

Danir ákváðu nýlega að innkalla og banna núðlurnar vegna hættulegs magns kap­saísíns, sem má finna í eldpipar.

Segir Katrín stofnuninni ekki hafa borist ábendingar um núðlurnar frá neytendum en muna bregðast við ef aðstæður kalli á. Þau ráðgeri að svo stöddu að setja fram upplýsingar/viðvörun til neytenda almennt um neyslu á mjög sterkum eldpipar.

MAST hefur ekki borist ábendingar um núðlurnar.
MAST hefur ekki borist ábendingar um núðlurnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Almenn regla gegn heilsuspillandi matvælum

Bendir Katrín á að ákvörðun danska matvælaeftirlitsins sé byggð á þeirra eigin áhættumati en að í Evrópu séu engi hámarksgildi fyrir magn efnisins í gildi. Svo virðist sem Danir séu að ríða á vaðið með að banna vöruna þar sem aðrar þjóðir hafi enn ekki gengið svo langt.

„Það mætti sjá fyrir sér að í framtíðinni verði sett einhver hámarksgildi fyrir þessi efni í matvælum vegna þess að sannarlega geta þau verið skaðleg í miklu magni,“ segir Katrín.

„Það fyrirfinnst hins vegar sú almenna regla að ekki megi hafa á boðstólnum matvæli sem geta valdið heilsuskaða, og á því byggir ákvörðun danskra matvælayfirvalda, að fengnu áhættumati frá vísindamönnum hjá áhættumatsstofnun þeirra á sviði matvælaöryggis,“ segir í svari Katrínar. 

Uppköst, niðurgangur og ört hækkandi blóðþrýstingur

Helstu skaðlegu áhrif of mikillar neyslu á kapsaísín-efninu séu áhrif á slímhúð meltingarfæri, uppköst, niðurgangur, verkir og getur blóðþrýstingur einnig hækkað snögglega, sem getur verið afar skaðlegt.

„Því má bæta við að hættan við neysluna kemur sérstakleg fram þegar farið er í „áskoranir“ um að borða vörur sem eru svo sterkar að fólk þarf að hundsa skilaboð líkamans um brunatilfinningu til að halda neyslunni áfram,“ segir Katrín. 

Fólk sé misviðkvæmt fyrir áhrifum og sumir virðist þola mikið meira en aðrir án skaðlegra áhrifa. Börn geti aftur á móti verið mjög viðkvæm fyrir skaðlegum áhrifum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert