Höddi Magg snýr aftur í enska boltann

Höddi Magg mun lýsa leikjum í ensku úrvalsdeildinni á komandi …
Höddi Magg mun lýsa leikjum í ensku úrvalsdeildinni á komandi leiktíð. Ljósmynd/Aðsend

Hörður Magnússon snýr aftur í enska boltann og mun lýsa leikjum í ensku úrvalsdeildinni á Sjónvarpi Símans á komandi leiktið.

Höddi Magg, eins og hann er oftast nefndur, er öllum hnútum kunnugur hvað fótboltalýsingar varðar. Hann var íþróttafréttamaður á Stöð 2 í tæp 20 ár þar sem hann lýsti mörgum leikjum í ensku úrvalsdeildinni, en honum var sagt upp störfum hjá Stöð 2, nú Sýn, fyrir tæpum fimm árum.

Síðan þá hefur hann lýst leikjum fyrir Viaplay í þýsku, dönsku og frönsku deildinni, Afríkukeppninni og Suður-Ameríkukeppninni og mun gera það áfram í vetur í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Hörður hefur einnig komið að nokkrum verkefnum fyrir RÚV og þar má nefna HM í Katar, bikarkeppni karla og kvenna í knattspyrnu, leikjum karla-og kvennalandsliðsins í knattspyrnu, HM kvenna í knattspyrnu og EM karla í knattspyrnu, sem lauk í fyrrakvöld, þar sem Hörður lýsti með glæsibrag úrslitaleik Spánverja og Englendinga.

Ólympíuleikarnir í Frakklandi eru fram undan og mun hann lýsa leikjum í karla-og kvennakeppni leikanna í fótbolta.

Tímabilið í ensku úrvalsdeildinni sem hefst í næsta mánuði verður það síðasta sem Sjónvarp Símans verður með útsendingaréttinn, en Sýn hefur tryggt sér útsendingaréttinn frá keppnistímabilinu 2025/26 til 2027/2028.

Mikil tilhlökkun

„Það er bara mikil tilhlökkun að fara að lýsa enska boltanum á nýjan leik. Ég hef ekki komið nálægt honum í um sex ár og það er spennandi að fá tækifæri til að gera það aftur. Það er ekki eins og maður þekki ekki þessa leikmenn og lið á Englandi og enska úrvalsdeildin er sú deild sem höfðar mest til okkar Íslendinga,“ segir Hörður við mbl.is.

Lið Manchester City varð í vor Englandsmeistari fjórða árið í …
Lið Manchester City varð í vor Englandsmeistari fjórða árið í röð. AFP/Oli Scarff

Hörður segist ekki hafa séð það fyrir sér að koma aftur í lýsingar á enska boltanum en þegar tækifærið bauðst hafi verið erfitt að hafna því.

„Þetta verður skemmtilegt verkefni. Eins og við vitum er mikil ástríða í kringum enska fótboltann og er mönnum hjartans mál. Ég þekki alveg þá tilfinningu sem stuðningsmenn hafa gagnvart þessu. Ég er orðinn ansi sjóaður í þessum bransa og veit hvað klukkan slær. Ég held tímabilið sem fram undan er verði mjög spennandi,“ segir Hörður.

Alltaf fundist hann vera frábær lýsandi

„Ég hef þekkt Hödda í mörg ár og mér hefur alltaf fundist hann vera frábær lýsandi. Hann hefur sýnt það á RÚV á síðustu stórmótum og í bikarkeppninni hversu megnugur hann er og fólk hefur greinilega saknað hans. Það verður gaman að eyða síðasta árinu með honum,“ segir Tómas Þór Þórðarson, umsjónarmaður enska boltans hjá Símanum, við mbl.is.

Keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst 16. ágúst með leik Manchester United og Fulham á Old Trafford í Manchester.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert