Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins gerður afturreka

Samstöðuganga með Palestínu.
Samstöðuganga með Palestínu. mbl.is/Arnþór

Ríkissaksóknari hefur gert lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu afturreka með þá ákvörðun sína að hætta rannsókn á meintum mútugreiðslum Semu Erlu Serdaroglu og Maríu Lilju Ingveldar Þrastardóttur Kemp til erlendra embættismanna, með fjármunum sem söfnuðust undir merkjum samtakanna Solaris til að greiða götu palestínskra hælisleitenda frá Gasa hingað til lands.

Ríkissaksóknari leggur fyrir lögreglustjóra að taka upp rannsókn málsins á ný, „ljúka henni og taka ákvörðun í málinu að þeirri rannsókn lokinni í samræmi við ákvæði sakamálalaga,“ eins og komist er að orði í bréfi ríkissaksóknara til málsaðila, sem Morgunblaðið hefur undir höndum.

Þar kemur m.a. fram að ríkissaksóknari hafi óskað eftir rökstuðningi lögreglustjóra fyrir ákvörðun sinni, en hann hafi ekki borist.

Upphafið kæra frá borgara

Einar S. Hálfdánarson hæstaréttarlögmaður kærði konurnar tvær fyrr á þessu ári vegna grunsemda um að fyrrgreind háttsemi þeirra kynni að varða við ákvæði almennra hegningarlaga um mútugreiðslur, sem geta varðað allt að sex ára fangelsi.

Ríkissaksóknari fellst ekki á að rök standi til að hætta rannsókn málsins. Ekkert komi fram um það hjá lögreglustjóra að lagt hafi verið sjálfstætt mat á það hvað fælist í starfsemi hinna kærðu kvenna og eða Solaris-samtakanna, eða á málstað og verkefni þeirra sem feli í sér opinbera fjársöfnun í skilningi laga um slíkar safnanir.

Marklaus niðurstaða

Ríkissaksóknari segir að í bréfi lögreglustjóra komi einungis fram að rannsókn hafi verið hætt þar sem grundvöll skorti til að halda henni áfram. Sú niðurstaða sé marklaus og fái ekki staðist.

Í gögnum lögreglustjóra komi „ekkert það fram að álykta megi að lögreglustjóri hafi skilgreint sakarefni né komist að sjálfstæðri niðurstöðu um það að ekki væri um opinbera fjársöfnun að ræða, heldur byggir það á svörum kærðu í málinu,“ segir ríkissaksóknari. Hann segir jafnframt að gögn málsins beri með sér að lögregla hafi hafið rannsókn þess, en ekki sett fram ætlað sakarefni með sjálfstæðum hætti, eins og skylt sé að lögum.

Ekkert komi fram í gögnum málsins af hverju rannsókn hafi verið hætt og því sé sú ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir lögreglustjóra að „taka málið til viðeigandi meðferðar.“

Helga Vala Helgadóttir, lögmaður Semu Erlu, lét hafa eftir sér opinberlega þegar lögregla felldi niður rannsókn málsins fyrr á árinu að engin gögn hefðu fylgt kærunni, en umbjóðandi sinn lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Því hefði ekki verið tilefni til að halda rannsókn málsins áfram. Annað er nú komið á daginn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert