Nýr staður hugsanlega opnaður á næstu vikum

Haraldur Þorleifsson lokaði veitingastað sínum Önnu Jónu fyrr á árinu.
Haraldur Þorleifsson lokaði veitingastað sínum Önnu Jónu fyrr á árinu. mbl.is/Ásdís

Haraldur Þorleifsson hyggst leigja út húsnæði að Tryggvagötu 11, þar sem veitingastaðurinn Anna Jóna var áður, og horfir til þess að rekstur annars veitingastaðar taki þar við.

„Ég er mjög líklega kominn með leigjanda, það er svona á lokametrunum,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is, spurður hvað taka muni við af Önnu Jónu í húsnæðinu að Tryggvagötu 11.

Greint var frá því í byrjun maí að Önnu Jónu hefði verið lokað en veitingastaðurinn hafði þá verið opinn í eitt ár.

Haraldur lýsti þá ástæðum lokunarinnar í viðtali á mbl.is.

Opnar á næstu vikum ef allt gengur upp

Haraldur segir að þegar búið verði að leigja út húsnæðið hefjist þar að öllum líkindum starfsemi annars veitingastaðar en kveðst ekki geta tjáð sig nánar um það að svo stöddu. Tekur hann fram að ekki sé búið að ganga frá samningum til fulls.

Haraldur kveðst ekki koma að rekstri veitingastaðarins og segir að hans aðkoma felist eingöngu í útleigu húsnæðisins.

„Ef þetta gengur upp, þá væri það bara á næstu vikum,“ segir Haraldur, spurður hvenær starfsemi veitingastaðarins myndi hefjast í húsinu.

„En maður veit nú aldrei þegar maður er að semja svona.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert