Algengt verð á hamborgaramáltíð á veitingastað á höfuðborgarsvæðinu er í kringum þrjú þúsund krónur og hefur hækkað talsvert síðasta eitt og hálfa árið.
Óformleg könnun Morgunblaðsins leiðir í ljós að allir veitingastaðir hafa hækkað verðið og sumir umtalsvert.
Þetta er í þriðja sinn sem slík könnun er framkvæmd. Hin fyrsta var gerð í febrúar 2023 og sú næsta í júní sama ár. Nú, ári síðar, er ástandið engu betra og mjög í takt við þær fréttir sem reglulega berast af erfiðum rekstri veitingahúsa.
Rétt eins og fyrr er dýrasta máltíðin hjá Hamborgarafabrikkunni. Fabrikkustöðunum hefur reyndar fækkað talsvert á þessu eina og hálfa ári en verðið hefur hækkað um 11%.
Nú kostar það 3.698 krónur að graðga í sig máltíð þar. Fjögurra manna fjölskylda pungar út tæpum 15 þúsund krónum fyrir herlegheitin.
Þá er ekki horft til þess að fjárfest sé í sósum eða öðru meðlæti og hvað þá að einhver leyfi sér munað á borð við bjór- eða vínglas með matnum.
Kannað var verð hjá níu veitingastöðum sem sérhæfa sig í hamborgurum og bjóða upp á að gestir geti sest niður og notið matarins.
Lesa má umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.
Árétting: Forvarsmenn Yuzu vilja koma því á framfæri að á Yuzu er sósa með frönskum innifalin í máltíðinni. Á öðrum stöðum sé rukkað í kringum 300 krónur fyrir sósu.