Þorbjörn snýr heim: Öll flutt úr Grindavík

Björgunarsveitarfólk á vakt við Grindavík í nóvember.
Björgunarsveitarfólk á vakt við Grindavík í nóvember. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir 8 mánaða fjarveru höfum við björgunarsveitarfólk í Grindavík snúið til baka í björgunarsveitarhúsið okkar í Grindavík.“

Svona hefst færsla frá björgunarsveitinni Þorbirni á Facebook.

Aðsetur sveitarinnar var flutt til Reykjanesbæjar í kjölfar rýmingar í Grindavíkurbæ í nóvember á síðasta ári.

Í gærkvöldi mættu 30 félagar sveitarinnar til þess að flytja, þrífa, endurskipuleggja búnað og gera tilbúið fyrir næstu verkefni sveitarinnar, að því er segir í færslunni.

Öll flutt úr bænum

Tekið er fram að allir félagar sveitarinnar séu fluttir úr Grindavík. Nokkrir þeirra starfi í Grindavík á daginn en helmingur hópsins búi á Suðurnesjum.

„Þrátt fyrir þetta ætlum við að halda áfram að sinna útköllum og verkefnum en fyrst og fremst halda áfram okkar góða félagsstarfi í Grindavík,“ segir í færslu Þorbjarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert