Þyrlan tvisvar kölluð til vegna göngumanna

Göngumenn lentu í vandræðum við fjallið Vestrahorn.
Göngumenn lentu í vandræðum við fjallið Vestrahorn. Ljósmynd/Wikipedia

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar þurfti að sinna tveimur útköllum að beiðni lögreglunnar á Suðurlandi í gær og í nótt. Í báðum tilvikunum lentu göngumenn í vandræðum á fjöllum.

Í gær lenti göngumaður í sjálfheldu við fjallið Strút norðan Mýrdalsjökuls og flutti þyrlan hann niður af fjallinu.

Klukkan 2 í nótt var svo óskað eftir aðstoð þyrlunnar vegna tveggja göngumanna sem voru í vandræðum í Vestrahorni við Hornafjörð. Þyrlan fór á staðinn og flutti tvo aðila niður af fjallinu og flaug með þá til Hornafjarðar.

Í hvorugu tilvikinu var um slys á fólki að ræða að sögn Þorsteins Kristinssonar, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert