Varðhald framlengt vegna almannahagsmuna

Maðurinn var handtekinn í júní vegna gruns um að hafa …
Maðurinn var handtekinn í júní vegna gruns um að hafa stungið mann í heimahúsi á Súðavík. Samsett mynd

Héraðssaksóknari fer fram á fjögurra vikna framlengingu gæsluvarðhalds yfir manninum sem grunaður er um að hafa stungið annan mann á Súðavík. Um ræðir varðhald á grundvelli almannahagsmuna.

Núverandi gæsluvarðhald rennur út á morgun en Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá héraðssaksóknara, staðfestir að gæsluvarðhaldið verði framlengt á morgun um fjórar vikur.

Maðurinn hefur núna sætt gæsluvarðhaldi frá því snemma í júní en hann var þá fyrst úrskurðaður í varðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna vegna gruns um að hafa stungið mann með hnífi í heimahúsi.

Úrskurður bendir til sterks gruns um sekt

Greint var frá því í síðustu viku að rannsókn lögreglu á málinu væri lokið og að það væri komið á borð héraðssaksóknara.

Tekur Karl fram að maðurinn sæti ekki lengur gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna heldur sé hann nú í haldi vegna almannahagsmuna. Útskýrir hann að menn séu almennt úrskurðaðir í slíkt varðhald þegar sterkur grunur leikur á að þeir hafi framið alvarlegt afbrot.

Sá sem varð fyrir árásinni hlaut lífshættulegt stungusár og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur en hann er nú úr lífshættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert