Verði að bregðast við breyttum veruleika

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir það ákveðinn létti að vita að Mohamad Kourani verði á bakvið lás og slá næstu árin. Hann segir að bregðast verði við breyttum veruleika með lagabreytingum og aukinni löggæslu.

„Gagnvart mér þá er þetta óþægilegt því þetta er starfið mitt, ég er ekki að hafa áhyggjur af sjálfum mér, en maður vill ekki að börnin sín eða fjölskylda verði fyrir árásum af völdum svona manna sem tengjast vinnunni manns,“ segir Helgi í samtali við mbl.is.

Aldrei upplifað annað eins á 26 ára ferli

Helgi tekur fram að fleiri en hann hafi orðið fyrir hótunum af hendi Kourani og orðið fyrir líkamsárás. Kourani var meðal annars sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og stórfellda líkamsárás gegn tveimur mönnum. Hann var dæmdur í átta ára fangelsi.

„Ég er búinn að vinna við þetta í 26 ár og ég hef aldrei orðið fyrir neinni hótun eða ókurteisi af hálfu þeirra sakborninga sem ég hef verið að fást við, sem eru flestir Íslendingar,“ segir Helgi.

Hann segir þetta nýtt að menn þurfi að sitja undir þessu af tilefnislausu. Helgi hefur ekki ákært Kourani heldur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra um rannsaka ekki mál sem Kourani kærði frekar.

„Ég held að það sé að breytast hjá okkur þetta friðsæla örugga land okkar,“ segir Helgi. Ýmis dæmi séu um að hér séu að koma að menn sem hafi önnur viðhorf til náungans, laga og reglna og mannréttinda.

„Það eina sem við getum gert til að taka fólki í þessum mæli er að auka heimildir lögreglu og bregðast við með aukinni löggæslu og lagalegum úrræðum,“ segir Helgi.

Höfum hingað til trúað því besta upp á fólk

Spurður hvort það væri tilefni til að lögfesta heimild til handa yfirvöldum til að framlengja fangelsisvist sakbornings svo lengi sem honum er ekki treystandi til lausagöngu segir Helgi vel hægt að ímynda sér það.

„Við höfum hingað til geta verið saklaus og trúað því besta upp á fólk og komist upp með það. Það er kannski bara orðið nýtt núna að við getum það ekki lengur og þurfum að bregðast við því með breyttum lögum,“ segir Helgi. Slíkt ákvæði er til staðar í norskum lögum.

Helgi veltir því upp hvað mönnum verði boðið upp á þegar Kourani lýkur afplánun dómsins.

„Við getum ekki rekið samfélag þar sem að heiðarlegt fólk sem er að vinna vinnuna sína þarf að líta yfir öxl sér út af svona drullusokkum,“ segir Helgi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert