Vilja veita nýrri kynslóð tækifæri

Hátíðin er haldin í síðasta sinn í ár.
Hátíðin er haldin í síðasta sinn í ár. Ljósmynd/Hrefna Björg Gylfadóttir

„Við viljum opna sviðið fyrir nýjar kynslóðir og ímyndunarafl þeirra,“ segir Þórhildur Tinna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri listahátíðarinnar Lunga á Seyðisfirði, í samtali við mbl.is.

Hátíðin verður haldin í síðasta skipti í ár, en hún fagnar 25 ára afmæli sínu. Hátíðarhöldin hófust í gær en þeim lýkur á laugardag.

Mikilvægt að kveðja

Framkvæmdastjórar Lunga, Þórhildur Tinna og Helena Solveigar Aðalsteinsbur, segja ýmsar ástæður vera fyrir því að ákveðið hafi verið að hætta halda hátíðina. Þau vonast til þess að ungt fólk taki sig til og skipuleggi hátíð fyrir ungt fólk, en Lunga er listahátíð sem er miðuð að ungu fólki.

„Það er fallegt að leyfa hlutum að verða að moltu svo eitthvað geti sprottið frá því. Styrktarumhverfið er skipulagt í samkeppni fyrir svona hátíðar á Íslandi. Við vitum að um leið og við erum farin þá myndast gat í styrktarumhverfinu fyrir einhvern,“ segir Helena.

Lunga er haldin á Seyðisfirði.
Lunga er haldin á Seyðisfirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Þórhildur og Helena segja að þeim hafi fundist mikilvægt að gefa hátíðargestum tækifæri til að kveðja Lunga. Það eigi ekki síst við um heimamenn.

„Lunga væri ekkert án Seyðfirðinga,“ segir Helena.

Þórhildur og Helena þakka Seyðfirðingnum Daníel Erni Gíslasyni sérstaklega fyrir stuðning sinn við Lunga, en hann hefur mætt í hvert skipti sem hátíðin hefur verið haldin.

Tónleikar fyrir framan kirkju

Þórhildur og Helena segja um 200 gesti verja allri vikunni á hátíðinni, en svo búast þau við að um 1.000 manns mæti á laugardag.

Á laugardaginn verða haldnir tónleikar og eftir þá kveðjuathöfn. Meðal þeirra sem koma fram á tónleikunum eru Bashar, Kristín Sesselja, Hjaltalín, Sóðaskapur, Teitur Magnússon og Tara Mobee. Nýtt útisvið fyrir tónleikana er í smíðum, en þeir verða haldnir fyrir framan kirkjuna á regnbogagötu Seyðisfjarðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert