Vill að allir þekki sjaldgæfari einkenni

Félagið SJÓR vinnur að því að tryggja öryggi þeirra sem …
Félagið SJÓR vinnur að því að tryggja öryggi þeirra sem iðka sjósund. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mun algengara að fólk sé að lenda í ofkólnun en þess þá heldur verður maður að vera vakandi fyrir því sem er ekki jafn algengt,“ segir Herdís Anna Þorvaldsdóttir, formaður Sund- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur.

Greint var frá því í síðustu viku að íslensk kona hafi verið að stunda sjósund þegar æðakerfi hennar fór yfir um og byrjaði að seyta vökva í lungu hennar. Talið er langsund í köldu vatni hafi valdið einkennum hennar en hún var greind með lungnabjúg.

Herdís segir að um mjög sjaldgæft tilfelli hafi verið að ræða en tekur fram að engu að síður þjóni það sem áminning um að fara varlega við iðkun sjósunds.

Með frítt skyndihjálparnámskeið

„Það má auðvitað alltaf vekja athygli á því að fólk þarf að fara með aðgát í sjóinn eins og með alla aðra íþróttaiðkun,“ segir Herdís og bætir við að félagið, sem kallað er SJÓR, reyni sífellt að auka öryggi þeirra sem iðka íþróttina.

Nefnir hún að félagið bjóði félagsmönnum að sækja skyndihjálparnámskeið gjaldfrjálst og hyggist gera það áfram. Spurð hvort á námskeiðinu sé frætt um lungnabjúg af völdum sunds svarar Herdís að frætt sé um allt sem getur komið upp við sjósund.

„En það má alveg fara betur í þetta,“ bætir hún við og útskýrir að þó félagsmönnum SJÓR sé boðið að sækja skyndihjálparnámskeið þá stundi fleiri sjósund en eru í félaginu.

Tryggja öryggi með góðri umgjörð

Herdís tekur fram að á þeim viðburðum sem SJÓR kemur að sé umgjörð með þeim hætti að hægt er að bregðast skjótt og vel við ef eitthvað kemur upp.

Þannig hafi fulltrúar félagsins uppgötvað lífshættulegt ástand konunnar á sínum tíma en Herdís lýsir því að meðal annars séu læknir og hjúkrunarfræðingur til viðbragðs á viðburðum félagsins.

„Þeir sem eru lengra komnir eru auðvitað meðvitaðir um svona óvenjulegri hættur en við munum örugglega passa upp á að allir þekki þessi einkenni,“ segir Herdís.

Herdís Anna Þorvaldsdóttir er formaður SJÓR eða Sund- og sjóbaðsfélags …
Herdís Anna Þorvaldsdóttir er formaður SJÓR eða Sund- og sjóbaðsfélags Reykjavíkur. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Vilja varúðarskilti við sundstaði

Nefnir hún að SJÓR hafi stungið upp á því við borgaryfirvöld í Reykjavík að setja upp skilti sem vara við áhættuþáttum sjósunds alls staðar þar sem íþróttin er stunduð.

Leggur hún þannig áherslu á að fólk sé til dæmis ekki að synda eitt á ferð, svangt, þreytt eða í myrkri.

„Þannig að við viljum auðvitað alltaf vekja athygli fólks á því að vera ekkert að leika sér að hættunni, fara bara að öllu með gát en samt leyfa sér að lifa,“ segir Herdís að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert